136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:15]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er út af fyrir sig ágætt sjónarmið að kjararáð ákvarði um alla hluti sem varða kjör þingmanna og ráðherra, m.a. það sem ég og hv. þm. Pétur Blöndal ræddum í gær, um dagpeninga, vildarpunkta, starfskostnað o.fl. þess háttar. Ég held að út af fyrir sig væri gott að kjararáð fengi eitthvert yfirlit um þau kjör líka.

Ég hef hins vegar litið svo á að með frumvarpi því sem hér er til umræðu í þriðja sinn á þessu þingi — og er þriðja frumvarpið sem fram hefur komið um þessi efni á nokkrum árum, frá hinu fræga frumvarpi sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson samþykkti með jáyrði sínu árið 2003 — væri verið að koma hlutunum í nokkurn veginn endanlegt horf miðað við þær aðstæður sem við búum við, þ.e. það horf að þingmenn og ráðherrar yrðu færðir í þann lífeyrissjóð sem eðlilegast er að þeir tilheyri, nefnilega lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Svo getum við hv. þm. Pétur Blöndal deilt um hvernig sú skipan á að vera en að það sé þannig að afnumin séu sérréttindi og forréttindi þingmanna og ráðherra sem þjóðin hefur verið ákaflega óánægð með eins og hefur sýnt sig aftur og aftur eftir að frumvarpið 2003 komst inn á þing.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé hugmynd hans eða stefna að þetta breytist, þau lög sem kynnu að verða til úr frumvarpinu, og sennilega verða. Telur hann hættu á að þetta mál verði tekið upp aftur eða telur hann eða flokkur hans að það stefni í endurupptöku málsins eins og því verður væntanlega komið fyrir að lokinni þessari umræðu?