Tekjuskattur

Fimmtudaginn 05. mars 2009, kl. 16:14:56 (4728)


136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[16:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Með orðum mínum átti ég alls ekki við það að Bretar hefðu tekið lagaumhverfið frá Bandaríkjunum og tekið til dæmis tíunda eða fimmtánda hvert orð út úr þeirri umgjörð, ef það var það sem hv. þingmaður var að gefa í skyn að ég hefði meint með orðum mínum. Það sem ég var fyrst og fremst að tala um var — og upplýsingar og sjónarmið hef ég heyrt frá þeim sem hafa starfað í fjármálaumhverfinu í Bretlandi — að Bretar hafi í raun veitt afslátt, ef svo má segja, á margs konar kröfum miðað við þá löggjöf og umhverfi sem tíðkast í Bandaríkjunum og það sé meðal annars orsök, ásamt sjálfsagt vafalaust mörgum öðrum þáttum eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gat um hér í sínu andsvari, og það kunni að vera einn af þáttunum sem hefur veikt stoðir fjármálakerfisins í Bretlandi.

Eins og ég segi þá kunna margir aðrir þættir að eiga þar hlut að máli. En fyrst og fremst dró ég þetta fram sem líkingu í því sambandi að það sé mikilvægt að við búum við öfluga lagaumgjörð, öflugt kerfi í kringum þessa atvinnustarfsemi, traustar stoðir. Það kann vel að vera rétt hjá þingmanninum að eitt sé lagaumgjörðin sjálf og annað sé síðan framkvæmdin með lögunum. En auðvitað þarf lagaumgjörðin sjálf að vera skýr og öflug og sterk. Það á ekki að vera þannig að hægt sé að fara í kringum ákvæði laganna með framkvæmdinni einni og sér, að menn geti leikið sér að lagabókstafnum bara með því að framkvæma hlutina á einhvern mismunandi máta. Það er ekki traust lagasetning.