Tekjuskattur

Fimmtudaginn 05. mars 2009, kl. 16:16:48 (4729)


136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[16:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil þetta ekki enn þá, ef þeir hafa gefið 10% afslátt í einhverjum skilningi er það af lagasetningunni, eitthvað er tekið út af ákvæðunum eða þá af framkvæmdinni. Það var mjög merkileg framkvæmd lagabálki í Bretlandi sem setti Ísland eiginlega á hausinn en það voru hryðjuverkalögin. Ég held að það hafi ekki verið neitt sérstaklega mild framkvæmd á þeim lögum gagnvart Íslandi og íslenskum fyrirtækjum í Bretlandi.

Ég held að sitthvað fleira hafi valdið þessum vandræðum í Bretlandi og hruninu á Íslandi, t.d. fall Lehman Brothers í Bandaríkjunum. Það kostaði breskt þjóðfélag og efnahagslíf mjög mikið. Það kostaði fleiri mikið t.d. Svisslendinga, Íslendinga, því að Lehman Brothers voru búnir að tryggja Glitni lausafé til lengri tíma sem brást. Það fjallar því kannski um lagasetninguna og framkvæmd hennar eða að menn gefi afslátt af því. Ég held að einmitt framkvæmd Breta á hryðjuverkalögunum sýni að þeir gáfu ekki afslátt, ekki þegar það hentaði þeim ekki.