Tekjuskattur

Fimmtudaginn 05. mars 2009, kl. 16:20:12 (4731)


136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[16:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp sem er kannski ekki mjög brýnt að afgreiða strax miðað við að bjarga heimilunum í landinu. Hins vegar horfir það til framtíðar og er tilraun, að mér sýnist, til þess að takast á við þau vandkvæði sem ollu hruninu mikla og með því á að reyna að laga forsendur.

Ég hef flutt tillögu til þingsályktunar sem er að finna á þingskjali 634 og er 375. mál þingsins, um að búa til nýja tegund af hlutafélögum sem eru með gagnsætt eignarhald. Það yrði væntanlega mjög eftirsótt, bæði af lánveitendum og fjárfestum og mundi væntanlega taka yfir markaðinn, ef svo er hægt að segja. Þar í er margt svipað því sem er í þessu frumvarpi, svo að ég haldi því til haga.

Hér eru margar mismunandi breytingar og þarfnast málið örugglega mikillar vinnu í hv. efnahags- og skattanefnd þar sem ég á sæti. Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að þetta megi vinnast sem allra hraðast.

Ég ætla ekki að fara í gegnum einstaka liði sérstaklega. Það sem er athyglisvert er 3. liðurinn, um fyrirtæki sem eru í öðrum löndum og í skattaskjólum, og líka 5. liðurinn þar sem fjallað er um fyrirtæki sem skráð eru á Jómfrúreyjum og víðar.

Maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum stofnuðu menn fyrirtæki í þessum löndum? Ég hef ekki fengið almennilega eða vitræna skýringu á því annað en þá að menn reyndu þannig að fela eignarhald eða að skjóta tekjum undan skatti. Hvort tveggja þykir mér slæmt þannig að ég get alveg tekið undir breytingar, ef þær eru raunhæfar, til að koma í veg fyrir það.

Í fjórða lagi er rætt um að upplýst verði um inneignir og greidda vexti. Ég held að það sé allt til bóta þannig að ég tel að það sé margt í þessu frumvarpi sem horfir til betri vegar og hefði kannski átt að vera búið að gera fyrir löngu síðan. En það eru mörg verkefni sem menn glíma við og þegar allt gengur þokkalega vinna menn kannski ekki mikið í þeim. Það getur verið mjög slæmt og erfitt að breyta þegar allt gengur vel vegna þess að það eru alltaf einhverjir hagsmunir sem mæla því mót og fáir sem mæla með breytingum. En þegar menn fá yfir sig svona katastrófu eins og núna eru þeir frekar tilbúnir til að taka á sig ýmsar breytingar og þá er auðveldara að ná þeim fram.

Ég vil ekki tefja málið mikið meira og mun vinna hratt og vel að því í efnahags- og skattanefnd þótt ég sjái kannski ekki alveg að það sé það brýnasta núna, alla vega ekki fyrir heimilin og atvinnulífið, en auðvitað horfir það til framtíðar. Þá minni ég á tillögu mína til þingsályktunar, að búa til nýja tegund af hlutafélögum sem eru með gagnsætt eignarhald.