Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 13:51:59 (5178)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér kemur svolítið á óvart eftir það samkomulag sem gert var í gær að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ætla að ráða ræðumönnum þegar búið er að binda umræðuna þannig að andsvör verða ekki heimil og umræðan byggist á fjölda þingmanna, Sjálfstæðisflokkurinn fær 26 mínútur í hvorri umferð og aðrir flokkar í hlutfalli við þingmannafjölda. Venjan er sú að hver þingflokkur fyrir sig skipar mönnum í umræðu og það miðast auðvitað við hverjir hafa tekið þátt í umræðunni áður. Margir af flutningsmönnunum tóku þátt í umræðunni í gær, m.a. hæstv. forsætisráðherra sem hóf hana og tók ítarlega þátt í henni og sat raunar í allt gærkvöld ásamt utanríkisráðherra. Mér kemur því á óvart og það er ekki í samræmi við það sem rætt var á fundinum í gær að kallað sé eftir eða gerð krafa um að umræðu sé frestað þar til forsætisráðherra kemur í salinn.