Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 14:11:18 (5185)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:11]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. forsætisráðherra, 1. flutningsmaður þessa máls, gangi von bráðar í salinn því að ég vildi eiga nokkur orðaskipti við hæstv. forsætisráðherra um þetta mál.

Eins og rakið var í umræðum í gær er margt afbrigðilegt og óeðlilegt við það hvernig þetta mál ber hér að hinu háa Alþingi. Það er ástæðulaust að endurtaka mikið af því en ég vil þó segja að það ber að harma það og fordæma að ekki skuli í alvöru hafa verið reynt að ná samstöðu allra þingflokka um þær breytingar sem talið er nauðsynlegt að gera á stjórnarskránni núna. Má reyndar deila um hverjar þær ættu að vera. Ég vil þó ekki útiloka að eitthvert slíkt samkomulag kunni að nást ef reynt verður að leita samkomulags milli þingflokka hér, en eins og þetta er núna fram lagt, reitt fram af hálfu fjögurra flokka hér án þess að leita samráðs við þann fimmta í nokkurri alvöru, eru það ekki boðleg vinnubrögð. Það er reyndar búið að rekja mjög ítarlega í umræðunum hvernig einstakar greinar frumvarpsins eru býsna gallaðar, ég hyggst ekki endurtaka það.

Ég vil rifja aðeins upp fyrst hæstv. forsætisráðherra er gengin í salinn hvernig að málum var staðið í aðdraganda stjórnarskrárbreytinganna veturinn 1994–1995. Eins og ég sagði frá í gær var ákveðið á sérstökum hátíðarfundi á Þingvöllum þar sem núverandi forsætisráðherra sat á ráðherrabekk — þó að hún hafi sagt af sér viku síðar — að hefja endurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, VII. kaflanum. Ég er búinn að rekja hérna hvernig það mál gekk fyrir sig, en ég vil bæta því við að í þeirri vinnslu veturinn 1994–1995 starfaði hér stjórnarskrárnefnd undir minni forustu allan veturinn. Eitt af því sem við gerðum í þeirri nefnd til að hleypa almenningi að málinu var að auglýsa í dagblöðum eftir athugasemdum, viðbrögðum, hugmyndum, breytingartillögum. Ég man ekki hvort hæstv. núverandi forsætisráðherra var í þeirri nefnd en hitt man ég að hæstv. núverandi dómsmálaráðherra var ritari nefndarinnar og getur eflaust gefið góð ráð um vinnubrögð af þessu tagi ef hæstv. núverandi ríkisstjórn skyldi detta í hug að viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð af því tagi að þessu sinni.

Það var gefinn nokkurra vikna frestur til að skila tillögum eða hugmyndum eða ábendingum og síðan fóru vikur og mánuðir í að vinna úr þeim og reyna að ná öllu saman. Það er tíminn sem þarf til að geta unnið svona mál almennilega og fyrir opnum tjöldum þar sem nefndarmenn, sérstaklega nefndarformaðurinn fór á marga fundi hjá hinum ýmsu samtökum úti í bæ til að ræða þetta mál og tók þátt í fjölmörgum umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi. Þetta var rökrætt á vettvangi lögmanna og annarra eins og margir hér inni muna, hvort sem þeir sátu þá á Alþingi eða ekki. Vinnubrögðin núna í samanburði við þetta eru fyrir neðan allar hellur vegna þess að það er ætlunin að knýja fram niðurstöðu án þess að gefa hópunum úti í þjóðfélaginu tækifæri til að tjá sig að því er virðist og án þess að efna til almennilegrar umfjöllunar hér í þingnefnd enda hefur manni skilist að forsætisráðherra hyggist rjúfa Alþingi, á morgun jafnvel eða einhvern tíma mjög fljótlega. Þá er hugmyndin að afgreiða breytingar á sjálfri stjórnarskránni eftir að búið er að rjúfa þingið. Þætti það eflaust nokkurt nýmæli þeim sem kynnt hafa sér stjórnarfarsreglur hér á Íslandi, hvað þá að flytja ný þingmál eftir að búið er að rjúfa þingið ef það skyldi vera meiningin.

Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, til að draga fram samanburðinn á vinnubrögðum, annars vegar hvernig á að vinna svona mál eins og það var gert í góðu samfloti og góðu samstarfi þennan vetur, 1994–1995 í aðdraganda kosninga, og svo núna. Auðvitað var málið ekki ágreiningslaust þann vetur, það voru miklar deilur um þetta mál eins og við munum, miklar deilur um mörg atriði sem vörðuðu mannréttindaþættina. Fremstur í flokki fór þar kunnur lögmaður hér í bæ sem hafði sig mjög í frammi en á endanum náðist um þetta mál samkomulag og ég held að reynslan af þessum ákvæðum sé býsna góð eins og um þau hefur verið fjallað, m.a. af dómstólunum. Ég taldi nauðsynlegt að draga þetta fram, virðulegi forseti.

Ég vil svo ræða aðeins stjórnlagaþingshugmyndina sem er hér í eftirdragi í þessu frumvarpi sem bráðabirgðaákvæði. Hæstv. forsætisráðherra lét sig hafa það að segja í gær að sá sem hér stendur væri á móti því að þjóðin fengi að ráða stjórnarskránni vegna þess að mér litist ekki á hugmyndina um stjórnlagaþing. Er það ekki samt hugmyndin að þetta stjórnlagaþing sé fulltrúaþing og þjóðin kjósi fulltrúa til að annast þetta mál með svipuðum hætti og þjóðin kýs alþingismenn? Ekki er ætlunin að halda einn allsherjarþjóðfund með öllum Íslendingum til að afgreiða þetta mál?

Það á að kjósa á fulltrúaþing samkvæmt tillögunni hér. Hvernig ná menn kjöri á fulltrúaþingi? Væntanlega með því að kynna einhverjar hugmyndir um það hvernig þeir vilja breyta stjórnarskránni og hafa hana. Þeir leggja kannski fram eitthvert prógramm um það, einhverja stefnuskrá, og aðrir menn einhverja aðra stefnuskrá og jafnvel taka menn sig saman og bindast samtökum um að kynna einhverjar hugmyndir um það hvernig þeir vilja hafa stjórnarskrána. Það mundi ég halda að væri líkleg atburðarás og eðlileg. Þar með er verið að kjósa á fulltrúaþingið út frá einhverjum forsendum, út frá einhverju því sem menn vilja gera á fulltrúaþinginu. Gæti jafnvel hugsast að þar kæmu við sögu einhver pólitísk sjónarmið viðkomandi manna um það hvernig stjórnarskrá landsins ætti að líta út þó að það væri ekki kannski nákvæmlega eftir einhverjum flokkspólitískum línum? Jú, mér þætti líklegt að það yrði þannig.

Með öðrum orðum verða fulltrúar á stjórnlagaþingi kosnir samkvæmt einhverri stefnuskrá sem þeir leggja væntanlega fram. Síðan þurfa menn að leita málamiðlana á þinginu til að koma sér saman um það, það má búast við því að menn séu með mismunandi áherslur, einhverjir vilja leggja áherslu á að aðskilja framkvæmdarvald og löggjafarvald og afnema þingræðið, aðrir vilja gera breytingar á mannréttindakafla, enn aðrir vilja eiga eitthvað við trúfrelsisákvæðin, kjördæmaskipunina, ákvæðin um þjóðhöfðingjann o.s.frv. Kannski hafa ekki allir menn sömu áherslurnar sem verða kosnir á þetta stjórnlagaþing ef af því verður, en það er ekki hægt að halda því fram að þetta sé með einhverjum öðrum hætti beinna lýðræði frekar en það að Alþingi láti þetta mál til sinna kasta koma, enda er eitt mikilvægasta og merkilegasta verkefni Alþingis að fjalla nákvæmlega um þetta. Þess vegna er Alþingi stjórnarskrárgjafinn hér á Íslandi.

Mér finnst leggjast lítið fyrir þá sem vilja í aðra röndina auka veg og hlut Alþingis en á hinn bóginn taka frá þinginu þetta mikilvægasta hlutverk þess. Þetta fer ekki saman, þetta er það sem kallað er mótsögn, alveg eins og það er náttúrlega hlægileg mótsögn að ætla að senda alla stjórnarskrána til meðferðar og viðgerðar á stjórnlagaþingi en vera síðan búinn að fikta í þremur eða fjórum greinum fyrir fram ef stjórnlagaþingið væri kannski svo vitlaust að vera með einhverjar aðrar hugmyndir en þar koma fram. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi — nema hugmyndin sé, virðulegi forseti, að koma t.d. þessum þremur greinum í gegn en láta síðan stjórnlagaþingið detta í meðförum þingsins. Gæti það verið einhver hugmynd hér á sveimi meðal flokksmanna í stjórnarflokkunum? Stjórnlagaþingið er fyrst og fremst áhugamál framsóknarmanna og þá er kannski hægt að reyna að stóla á að það komi þannig hér út úr þingmeðferðinni að þessar greinar nái fram að ganga en stjórnlagaþingið kannski síður. Fyrir Framsóknarflokknum vakir að koma stjórnlagaþingshugmyndinni áfram en þeim er kannski ekki jafnmikið í mun að hinar greinarnar nái fram að ganga á þessu stigi, enda eiga þær að koma til umfjöllunar á stjórnlagaþinginu.

Þannig hafa þessir þrír flokkar, eða fjórir, sem að þessu standa náð saman um svona bastarðstillögu á sínum ólíku forsendum og hafa ólík markmið fyrir framan sig þegar kemur að þingmeðferðinni. Þetta er allt hið ólánlegasta, virðulegi forseti, það er ekki hægt að segja annað og það er eiginlega fyrir neðan allar hellur að leggja slíkt mál fram ef þetta er það sem fólk hefur í huga.

Síðan er annað mál, virðulegi forseti, að ef stjórnlagaþing kæmist að niðurstöðu og byggi til pakka, byggi til heila stjórnarskrá, eitt stykki stjórnarskrá, yrði þingið annaðhvort að samþykkja það í heilu lagi eða ekki, það eru engar breytingartillögur, það er ekki hægt að taka sumt og sleppa öðru. Þannig er það ef þingið er sjálft við málið, þá getur það sjálft tekið hverja einustu grein fyrir og fjallað um hana eins og alsiða er hér með öll önnur frumvörp.

Ég vildi koma þessu á framfæri, virðulegi forseti. Ég tel að uppsetningin á málinu eins og það er sýni að það er ekki lagt fram af fullum heilindum af hálfu flutningsflokkanna. Það eru þarna einhver undirmál á ferðinni og ekki er það gæfulegra en það hvernig staðið hefur verið að undirbúningnum gagnvart Sjálfstæðisflokknum sem fékk ekki einu sinni að gera tillögur, ekki einu sinni að tilnefna mann í undirbúningsnefndina, og aldrei hefur þeirri spurningu verið svarað hvers vegna Sjálfstæðisflokknum einum flokka var haldið fyrir utan það mál. Af hverju? Var talið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði engum slíkum sérfræðingum á að skipa, það væri tilgangslaust að leita eftir samstarfi eða fá sérfræðiaðstoð frá stærsta þingflokknum hér? Ekki kann ég svarið við því, herra forseti.

Síðan liggur náttúrlega fyrir að þetta þing mun kosta stórfé, við höfum áður rætt það. Það hefur verið talað um það, 41 þingmaður á fullu kaupi, sama kaupi og hinir 63, 104 þingmenn á sparnaðartímum plús 20 í einhverri ráðgjafanefnd plús allt starfsliðið plús aðstaðan plús sérfræðistóðið sem þessu fylgir o.s.frv. Eru þetta þau útgjöld sem mest liggur á að leggja í? Hvar á að taka þessa peninga þegar það er 150 milljarða halli á ríkissjóði og allt verið að gera, að því er manni skilst, til að draga úr útgjöldum? Það er allt verið að gera til að draga úr útgjöldum og það er vel í sjálfu sér. Við þekkjum það sem samstarfsfólk í síðustu ríkisstjórn að það er nauðsynlegt, en það er ekki nauðsynlegt að stofna til óþarfra nýrra útgjalda. Ég óttast að það sé það sem verið er að gera hérna og það sem verra er, þetta er fullkomlega að ástæðulausu, það eru engar nauðir sem rekur til þess að ráðast í þetta mál eins og nú standa sakir, efna til ágreinings, illinda og óþarfakostnaðar eins og nú háttar til í þjóðfélaginu.