Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 15:19:13 (5194)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við erum að koma að lokum 1. umr. um þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem borið er fram að frumkvæði ríkisstjórnarinnar, 1. flutningsmaður er hæstv. forsætisráðherra, 2. flutningsmaður er hæstv. fjármálaráðherra og svo fylgja með á blaðinu fylgiflokkar ríkisstjórnarinnar; Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn.

Þetta frumvarp, eins og hefur ítarlega komið fram í umræðunum, gengur á svig við öll meginsjónarmið sem höfð hafa verið uppi við breytingar á stjórnarskrá. Við breytingar á stjórnarskrá — og þannig hefur það verið varðandi allar þær stjórnarskrárbreytingar sem samþykktar hafa verið frá 1959 að þær hafa byggst á sátt milli flokka. (VS: Það var nú samt … 1959 …) Í annan stað hefur alveg frá 1959, í 50 ár hefur verið leitað eftir sátt milli flokka, hv. þm. Valgerður, (Gripið fram í.) já, já, í hálfa öld hefur verið byggt á sátt milli flokka um þessi mál, hv. þingmaður. Alltaf hefur verið byggt á vönduðum og ítarlegum undirbúningi. Alltaf hefur verið gefinn rúmur tími í þinginu til að fram geti farið nauðsynlegar og vandaðar umræður og umfjöllun geti verið stjórnarskránni samboðin og þinginu til sóma.

Nú er ljóst að ríkisstjórnin byggir þennan málflutning sinn og aðferð við að koma þessu inn í þingið á þveröfugum sjónarmiðum. Það er farið með þetta mál fram í ósætti, undirbúningstíminn er stuttur, málið er unnið í þröngum ráðgjafarhópi en ekki af pólitískum fulltrúum og tíminn sem gefinn er í þinginu til þess að fjalla um málin er afar knappur svo ekki sé sterkar til orða tekið. Allt er þetta með ólíkindum, sérstaklega þegar horft er til þess að alls staðar, ekki bara á Íslandi, heldur alls staðar í vestrænum lýðræðisríkjum er byggt á því að stjórnarskrárbreytingar eigi að fara fram með vandaðri og ítarlegri umræðum og málefnalegri hætti en nokkrar aðrar lagabreytingar. Það er alls staðar gert ráð fyrir því að stjórnarskrárbreytingar þurfi betri undirbúning og betri málsmeðferð en aðrar lagabreytingar. Þetta eru grundvallarlög ríkisins, þau lög sem önnur lög byggja á. Þess vegna hljóta menn að nálgast þessi mál af meiri varfærni, með meiri sátt í huga og af meiri vandvirkni en önnur frumvörp sem koma fram. Ríkisstjórnin hirðir ekkert um það.

Ég vék töluvert að einstökum ákvæðum frumvarpsins í fyrri ræðu minni við 1. umr. Ég ætla bara að nefna þrennt. Varðandi það ákvæði sem snýr að sameign þjóðarinnar eða þjóðareign á auðlindum hefur það mál mikið verið rætt, en öllum sem hafa komið að því máli er ljóst að þar er enn uppi ágreiningur, þar eru skiptar skoðanir og sá ágreiningur hefur ekki verið til lykta leiddur. Það er bæði pólitískur ágreiningur en það er líka ágreiningur milli fræðimanna um hvernig beri að túlka ákvæði af þessu tagi. Þetta er óleyst mál.

Í annan stað er fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er víðtæk pólitísk samstaða um að þjóðaratkvæðagreiðslum verði gefið meira vægi í stjórnskipan okkar en verið hefur, en um útfærsluna hefur ekki náðst nein pólitísk niðurstaða, ekki nein pólitísk sátt.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu fjallað um aðferðina við að breyta stjórnarskrám. Þar lá fyrir ákveðin sáttaleið árið 2007 sem fulltrúar allra flokka í stjórnarskrárnefnd skrifuðu undir, það var málamiðlun sem allir skrifuðu undir. Hún byggði á þremur efnisþáttum. Í þessu frumvarpi er einn þátturinn tekinn út úr, slitinn úr samhengi við hina og settur fram í frumvarpsformi. Um það hefur ekki verið reynt að ná neinni sátt.

Í fjórða lagi felur þetta frumvarp í sér að stofnað verði til stjórnlagaþings. Það er nýstárleg hugmynd eins og margir ræðumenn hafa minnst á. Reyndar eru, eins og kemur fram í greinargerð, til tillögur frá eldri tímum þar sem vikið hefur verið að þessari hugmynd en þetta er hins vegar atriði sem hefur ekki komið inn í þjóðfélagsumræðuna fyrr en á allra síðustu vikum. Fyrir hálfu ári, einu ári, tveimur árum, ég tala nú ekki í síðustu kosningum, var enginn að tala um stjórnlagaþing, (EBS: Af hverju ætli það hafi gerst?) það var enginn að tala um stjórnlagaþing þá. Hv. þm. Ellert B. Schram spyr: Hvers vegna ætli það hafi gerst? Það er vegna þess að það er slík taugaveiklun í herbúðum núverandi ríkisstjórnar og slík taugaveiklun í herbúðum Framsóknarflokksins að menn hlaupa á svona hugmyndir án þess að hugsa þær til enda, án þess að útfæra þær og skella þeim hér í frumvarpsformi fyrir þingið án þess að vinna málin til enda. Það er bara það sem er. Við erum með ríkisstjórn sem er farin á taugum og við erum með Framsóknarflokk sem er löngu farinn á taugum.

Ég velti líka fyrir mér fleiri atriðum, kannski ekki síst í ljósi orða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur áðan, sem minnti á að miklir atburðir hefðu orðið hér í haust og þar með hefðu þingmenn, þetta þing misst umboð sitt. Þess vegna væri nauðsynlegt að kjósa til nýs Alþingis, kjósa upp á nýtt. Svipuð ummæli heyrðust af hálfu margra þingmanna Samfylkingarinnar, m.a. hv. þm. Ellerts B. Schrams, hv. þáverandi ráðherra Björgvins G. Sigurðssonar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur og þingmannanna Katrínar Júlíusdóttur o.fl. Hálfur þingflokkur Samfylkingarinnar talaði um það hérna vikum saman fyrir jólin að þetta þing sem nú situr væri orðið umboðslaust, það væri bara algjörlega umboðslaust og þess vegna yrði að kjósa upp á nýtt. Það yrði að kjósa nýtt þing sem hefði umboð þjóðarinnar til þess að taka stórar ákvarðanir.

Ég veit að hv. þingmenn muna eftir þessari umræðu. Nú koma þessir sömu menn og lýstu sjálfa sig umboðslausa fyrir fáeinum vikum, svo umboðslausa að það þyrfti að efna til nýrra alþingiskosninga, og ætla ekki bara að grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að bjarga heimilum og fyrirtækjum, það er ekkert forgangsatriði hjá þessum mönnum, það er ekki það sem þeir eru að gera, ekki bráðaaðgerðir. Þetta umboðslausa fólk, fólk sem hefur lýst sjálft sig umboðslaust — það eru ekki mín orð, það eru orð þess sjálfs — telur sig þess umkomið að breyta stjórnarskránni, það telur sig þess umkomið að breyta kosningalögum, og ef spurt er hvers vegna því liggi á er komið með einhverjar óskilgreindar yfirlýsingar eins og: Það er krafa fólksins.

Hvernig mælum við kröfu fólksins? Við mælum hana að sjálfsögðu í kosningum. Þeir sem vilja breyta stjórnarskránni og þeir sem vilja breyta kosningalögum eiga auðvitað að fara með þau mál inn í kosningar, bera þau sjónarmið undir kjósendur og fá þá skýrt umboð til þess að koma slíkum breytingum í gegn. Það á ekki að keyra þær í gegn örstuttu fyrir kosningar með þeim hætti sem þessi ríkisstjórn ætlar að standa að.