Embætti sérstaks saksóknara

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 18:36:23 (5207)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg nauðsynlegt að spyrja út í þetta af því að hv. þm. Björn Bjarnason lagði sérstaka lykkju á leið sína við að koma þessu sérstaklega á framfæri hér sem er óvenjulegt eftir að ríkisstjórnarsamstarfi lýkur, þá er óvenjulegt að upplýsa um afstöðu þingflokka til mála. Það er líka mjög óvenjulegt, sem maður hefur séð svolítið upp á síðkastið, að fyrrum samstarfsflokkar eru að upplýsa um afstöðu einstakra ráðherra í ríkisstjórn. Það er mjög óvenjulegt. Yfirleitt er það þannig að eftir að samstarfi lýkur eru menn ekkert að rifja hér upp, hægri eða vinstri, hvað gerðist á einhverjum tíma í fortíðinni. (Gripið fram í.)

Þetta er mjög óvenjulegt að hv. þm. Björn Bjarnason skuli upplýsa hér að Samfylkingin hafi ekki hleypt í gegn þessum ákvæðum um auknar heimildir til embættis sérstaks saksóknara, þessar heimildir sem okkur þykir svo sjálfsagt núna að veita Mér finnst það eiginlega stórfrétt og þess vegna hef ég spurt hæstv. utanríkisráðherra að þessu. En ég heyri að hæstv. utanríkisráðherra vill ekki svara því beint, sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni, hvort þingflokkur Samfylkingarinnar hafi stöðvað þessar heimildir eða ekki.

En ég heyrði mjög vel að hæstv. utanríkisráðherra sagði að það hefði gengið of hægt að fá Sjálfstæðisflokkinn til að fallast á það að setja rannsóknarnefnd á laggirnar yfirleitt, þannig að það er greinilegt að hæstv. utanríkisráðherra kýs að koma því hér á framfæri að Sjálfstæðisflokkurinn var mjög tregur í taumi gagnvart því máli. Það er mjög sérstakt að hlusta hér á fyrrum samstarfsmenn í ríkisstjórn takast á með þessum hætti í ræðustól Alþingis í stóru máli.