Embætti sérstaks saksóknara

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 18:38:25 (5208)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:38]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég styð þetta frumvarp heils hugar, þetta er sjálfsagt og eðlilegt mál. Ég verð að vekja athygli á því að veitt er heimild til að afla gagna frá skilanefndum og fleirum og það er líka mælt fyrir um tilkynningaskyldu. Þetta er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt mál.

Hér er verið að sækja gögn sem kunna að vera bundin einhverjum trúnaði og verða það auðvitað í meðförum hins sérstaka saksóknara. Hann er bundinn trúnaði um þessi gögn nema fram komi vísbendingar um refsiverða háttsemi, þá víkur auðvitað þessi svokallaða bankaleynd, sem má auðvitað efast um að gildi um hina gjaldþrota banka og víkur fyrir almannaheill. Almannaheill gengur mun framar. Hér er bara verið að mæla fyrir um svipaðar heimildir og skattyfirvöld hafa og hafa sótt. Og það er ekki svo að skattyfirvöld, Samkeppniseftirlitið eða Fjármálaeftirlitið séu svo að dæla út þessum gögnum. Þetta eru trúnaðarbundin gögn. Þetta er sjálfsagt og eðlilegt.

Ég verð líka, frú forseti, að vekja athygli á því að þegar frumvarpið um sérstakan saksóknara var í meðförum allsherjarnefndar á sínum tíma taldi ég rétt að hinn sérstaki saksóknari færi með allar rannsóknir og hefði þær heimildir sem Fjármálaeftirlitið hefði. Ég lagði til að þannig yrði því breytt, þ.e. að mál sem sneru að aðdraganda bankahrunsins og hugsanlegum eftirmálum þess vikurnar og mánuðina á eftir væru algjörlega á valdsviði hins sérstaka saksóknara. (Gripið fram í.) Það var vegna þess að Fjármálaeftirlitið hafði veruleg tengsl inn í þessi málefni á undan, náin tengsl sem mátti auðvitað efast um eða sættu gagnrýni margra aðila. En það varð ekki úr og nú er komið hér fram þetta nauðsynlega, sjálfsagða og eðlilega frumvarp sem ég styð að sjálfsögðu.

Áríðandi er að hinn sérstaki saksóknari fái alla þá umgjörð sem þörf krefur og ég hygg að vilji löggjafans hafi staðið til þess þegar lögin voru sett á sínum tíma. Það komu fram ummæli um það að ekki yrði nein fyrirstaða hjá fyrri ríkisstjórn um að leggja þessu verkefni fé sem nauðsyn krefði svo því sé haldið til haga. Og ágiskun um 50 millj. kr. í verkefnið, það var svo sem skot út í bláinn á sínum tíma.

Hv. þm. Björn Bjarnason hélt því svo fram í ræðu sinni, án þess að rökstyðja það frekar, að hin sérstaka rannsóknarnefnd hefði tafist vegna afstöðu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður er að fara vegna þess að innan allsherjarnefndar var unnið hratt, örugglega og faglega að þessu frumvarpi í nánu samstarfi þeirra sem þar sátu og þar átti ég m.a. gott og náið samstarf við hv. formann nefndarinnar, Birgi Ármannsson. Við gerðum ýmsar breytingar á frumvarpinu sem voru til bóta og leiddu til þess að hv. þm. Sturla Böðvarsson, þá hæstv. forseti Alþingis, sá sérstaka ástæðu í lokaræðu sinni um málið að þakka nefndarmönnum í allsherjarnefnd, þar með töldum þeim sem hér stendur, fyrir vel unnin störf. Þær breytingar sem voru gerðar var samdóma álit um að væru til bóta og málið fékk á sínum tíma forgang hjá allsherjarnefnd.