Embætti sérstaks saksóknara

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 18:42:23 (5209)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka undirtektir þingmanna sem hér hafa tekið til máls við að þetta frumvarp verði að lögum. Ég ætla að koma inn á nokkur atriði og spurningar sem var beint til mín. Í fyrsta lagi hvaða hlutverk Eva Joly hefur með höndum sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Það er þannig að rannsóknin fer fram á nokkrum stöðum. Hún fer fram hjá hinu sérstaka saksóknara. Hún fer fram í Fjármálaeftirlitinu og fleiri stofnunum. Eva hefur bent á að rannsóknin komi til með að verða alþjóðleg og hún býr yfir miklum samböndum og reynslu á þeim vettvangi. Mundi hún geta nýst til að benda þeim yfirvöldum sem með rannsóknina fara bæði á þær leiðir sem unnt er að fara og einnig að koma þeim í sambönd við saksóknara og aðra sem eru í tengslaneti hennar. Hún er ekki ráðgjafi sérstaks saksóknara einungis enda ræður hann sjálfur til sín sitt starfslið.

Hvað varðar skoðanir hennar á fjölda starfsmanna í embættinu. Lagt var upp með það að í byrjun starfaði við embættið tiltekinn fjöldi manna sem ekki er mikill. Samt sem áður er það þannig að þegar lög um embættið voru samþykkt lá ekkert fyrir um hver málafjöldinn yrði eða hvert umfang þess embættis yrði. Því var ákveðið að leggja upp með það að þar byrjaði tiltekinn fjöldi starfsmanna og sem síðan yrði fjölgað þegar fram liðu stundir. Hugmyndir Evu Joly haldast í hendur við þær fyrirætlanir, enda hefur hún sjálf bent á að einhvern veginn verði allar rannsóknir að hefjast og hún hafi sjálf byrjað sína stóru rannsókn ein sitjandi við borð. Hvernig þetta verður fjármagnað verður að koma í ljós. Ég bendi á í því sambandi að töluverður fjöldi fólks vinnur þegar að rannsókninni eins og ég sagði á ýmsum stöðum

Ég get vel ímyndað mér að hægt sé að koma því svo fyrir að safna megi einhverju af þessu starfsfólki saman á einn stað og stuðla þannig að fjölmennri rannsókn sem tekur á öllum þáttum málsins þegar í byrjun þannig að hægt verði að greina hvaða mál fari í hvaða farveg. Ég held að það verði að skoða þetta mjög vandlega og þannig geti samlegðaráhrif skapast.

Það er vissulega galli í því sambandi að löggjafinn hefur búið svo um hnútana að það eru mjög skýr mörk á milli stofnana sem eru einmitt tilefni þessa frumvarps að einhverju leyti. Til dæmis er það þannig að Fjármálaeftirlitið sér alfarið um rannsókn mála sem þar eru þangað til þau eru kærð til lögreglu og vissulega hefði mátt sjá fyrir sér að saksóknarinn hefði heimildir til að fara inn í þær rannsóknir. En þetta varð niðurstaðan eftir mikla nefndarvinnu sem hafði það að markmiði að koma í veg fyrir tvíverknað sem er líka mjög mikilvægt markmið.

Hvað varðar áhyggjur eða ábendingar Evu Joly um að embættið sé ekki nægilega óháð og sé undir ríkissaksóknara komið og að það þurfi að vera sjálfstæðara, þá bendi ég á að hinn sérstaki saksóknari hefur stöðu héraðssaksóknara samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Hann höfðar sakamál, hann tekur sjálfur ákvörðun um það að höfða sakamál. Að vísu er þess getið í lögunum um embætti sérstaks saksóknara að honum sé skylt að hlíta fyrirmælum ríkissaksóknara, samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga um meðferð sakamála, og þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkissaksóknari getur gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta. Hann getur kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni.“

Skoða þarf sérstaklega hvort þetta ákvæði geri það að verkum að hinn sérstaki saksóknari teljist ekki nægilega sjálfstæður. En ég tel, virðulegi forseti, að það sé búið svo um hnútana að hinn sérstaki saksóknari sé sjálfstæður í sínum störfum. Um er að ræða tvö stjórnsýslustig, hinn sérstaka saksóknara og ríkissaksóknara, og að sjálfsögðu er það svo að ef ríkissaksóknari er vanhæfur í einstökum málum þá víkur hann sæti.