Embætti sérstaks saksóknara

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 18:50:08 (5212)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[18:50]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra þessi svör og þær upplýsingar sem hér hafa komið fram, sem ég tel að skýri málið. Ég tel einnig, í tilefni af þeim orðaskiptum sem urðu um réttarstöðu hins sérstaka saksóknara, og hvernig hann kemur að ríkissaksóknara, að um það sé að ræða að auka réttaröryggið með því að hafa þetta tvö stjórnsýslustig. Þeir sem telja að eitthvað sé að stjórnsýslu héraðssaksóknara eða hins sérstaka saksóknara geta kært þann þátt sérstaklega til ríkissaksóknarans en ríkissaksóknarinn sé ekki að hlutast um þær ákvarðanir sem teknar eru efnislega af saksóknara. Það er mjög mikilvægt atriði að hafa í huga.

Einnig er það svo að þegar um þetta er rætt er nauðsynlegt að líta til þess að þarna gilda hæfisreglur og ef einhverjum málum er skotið sérstaklega til ríkissaksóknara, af lægra stjórnsýslustigi upp á hærra stjórnsýslustig innan stjórnsýslurammans, er ríkissaksóknari að sjálfsögðu vanhæfur að fjalla um þau mál ef svo ber undir og snerta hann sérstaklega. Þarna er því ekki um neitt alhæft afskiptavald að ræða. Það lýtur að einstökum atriðum, stjórnsýslulegum atriðum, en efnislega lít ég þannig á að hinn sérstaki saksóknari eigi að taka endanlegar ákvarðanir um það hvort ákæra eigi í málum eða slíkt ef það er það sem hér hefur verið til umræðu.

Varðandi hinn þáttinn, sem ég vék að, þá vil ég koma því að við þessar umræður að ég var þeirrar skoðunar í upphafi að hafa ætti þessar víðtæku heimildir í lögunum. Ég bar það undir viðskiptaráðuneytið og viðskiptaráðherra og neikvætt svar kom til baka og það var það sem ég var að vísa til. Ég taldi víst að hæstv. viðskiptaráðherra hefði á þeim tíma tekið þetta upp á pólitískum vettvangi í þingflokki sínum eða annars staðar en hér hefur verið upplýst af hæstv. utanríkisráðherra að svo virðist ekki hafa verið. Þetta virðist ekki hafa verið rætt sérstaklega í þingflokki Samfylkingarinnar og það hefur þá skýrst í þessum umræðum. En það liggur fyrir, og er hægt að bréfa það og skoða ef menn vilja, hvaða álitaefni það voru sem bar á milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins, á milli mín sem dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskiptaráðherra, og hvað það var sem ég gaf eftir til að málið næði fram að ganga og sameiginleg sátt yrði.

Ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram í þessum umræðum vegna þess að ég hef alla tíð litið þannig á að þessar heimildir ættu að vera svona víðtækar. Að vísu held ég þetta séu núna — og reynslan hafi sýnt að þær þurfa að vera víðtækari en við gerðum ráð fyrir þegar við vorum að leggja upp með þetta, en þær heimildir sem við mæltum fyrir um og vildum ná fram hefðu auðveldað hinum sérstaka saksóknara að hefja sín störf.

Hvað rannsóknarnefndina varðar þá er ég feginn að hæstv. fjármálaráðherra er ekki í salnum þegar við ræðum þetta. Þegar ég tók þetta upp þá fékk ég slík ónot í mig og ógnandi stöðu fyrir framan ræðupúltið og síðan fylgdi handlagning hæstv. núverandi fjármálaráðherra yfir þáverandi hæstv. forsætisráðherra. Ég vona að slík atvik endurtaki sig ekki hér en það var það sem ég var að vísa til en ekki meðferðar málsins í hv. allsherjarnefnd — ég var að vísa til þeirrar uppákomu sem varð hér þegar ég leyfði mér að segja þá skoðun mína, sem ég hafði rök fyrir, að málið hefði tafist vegna afstöðu Vinstri grænna.