Heimild til samninga um álver í Helguvík

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 20:15:57 (5222)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að leynd verði afnumin af raforkuverðinu til stóriðjunnar. Hæstv. fjármálaráðherra sem hér var nefndur, Steingrímur J. Sigfússon, sem fer væntanlega með hlutabréfið í orkufyrirtækjunum — skil ég á hæstv. utanríkisráðherra — hefur flutt frumvarp í þinginu um að svo verði gert. Ég vil hins vegar minna á að samningsumboðið í þessu tilfelli er í höndum iðnaðarráðherra og það er í þeim samningum sem þessi leynd var innskrifuð, ekki í fyrsta samningnum sem var gerður við Alusuisse um byggingu álversins í Straumsvík. Þar var allt uppi á borðum, þar var raforkuverðið opið, þar vissu allir hvað borgað var fyrir rafmagnið.

Það var ekki fyrr en búið var að upplýsa um svikin gagnvart íslenska ríkinu, skattskilum til íslenska ríkisins, sem kennd eru við hækkun í hafi, að gerður var annar samningur við þetta fyrirtæki, eðlilega til þess að stöðva þau skattundanskot. Þá var bundin í nýja samningnum leynd yfir raforkuverðinu og til þess hafa hæstv. iðnaðarráðherrar síðan vísað. Það er ekkert sem segir að þetta þurfi að vera svona. Það er mjög önugt, ég tala þá af reynslu eftir að hafa verið stjórnarmaður í Landsvirkjun, að eiga að taka við einhverjum trúnaðarupplýsingum um slíkt sem kjörinn fulltrúi og sem fulltrúi Reykjavíkurborgar, eins og ég var, en mega hvorki segja umbjóðendum mínum né öðrum hvað þar er á ferð. Ég vil því ítreka áskorun mína til hæstv. iðnaðarráðherra að þessu leyti og síðan vonast ég til þess að geta í síðara andsvari rætt frekar um atvinnumálin.