Heimild til samninga um álver í Helguvík

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 20:18:07 (5223)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:18]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki lengur iðnaðarráðherra sem skipar stjórn Landsvirkjunar, það er hæstv. fjármálaráðherra sem það gerir. Það eru því ákaflega hæg heimatök hjá hv. þingmanni að tala við formann í sínum flokki og fá hann til þess að rifja upp þá gömlu tillögu sem hann flutti hér. Nú þarf hann ekki einu sinni að flytja hana aftur, hann getur bara tekið ákvörðun um þetta sjálfur, nánast, ef vilji er fyrir því í fjármálaráðuneytinu og í ríkisstjórninni.

Ég hef sjálfur sagt að ég tel að það sé sjálfsagt að aflétta þessari leynd. Ég sagði það í svari við fyrirspurn frá hv. þingmanni í umræðu í fyrra eða hittiðfyrra þannig að það liggur alveg ljóst fyrir. Það er hins vegar fyrirtækisins sjálfs að taka þá ákvörðun og yfir því er stjórn. Svo einfalt er það.

Hv. þingmaður sagði í fyrri ræðu sinni að það væri alveg ljóst að þarna væri á ferðinni mikil orkusuga sem mundi sjúga alla orku á Suðurnesjum og þar að auki mundi það ekki duga heldur mundi þurfa að fara í sjálfa neðri Þjórsá … (Gripið fram í.) Nú veit ég ekki um það hvort neðri Þjórsá verður virkjuð í framtíðinni en ég get þó lofað henni því að hún verður ekki virkjuð á starfstíma þessarar ríkisstjórnar sem nú situr. Í öðru lagi undirstrika ég að þessi fjárfestingarsamningur og þetta frumvarp eru með vísan til þess að orka fáist í krafti þeirra samninga og minnisblaða sem gerð hafa verið um fyrirhugaðra samninga við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Það er alveg í gadda slegið með þessu að ekki er hægt að fara í neðri Þjórsá til þess að reisa álverið í Helguvík. Þar með er ekki sagt að ekki verði ráðist í slíkar virkjanir einhvern tíma í framtíðinni en ég áforma það ekki, það liggur alveg ljóst fyrir.