Heimild til samninga um álver í Helguvík

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 20:22:05 (5225)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:22]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér fer fram afar mikilvæg umræða um atvinnumál. Það bregður svo við að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur mikla tangarsókn gegn hæstv. iðnaðarráðherra, sakar hann um ábyrgðarleysi, að búa til falskar vonir og væntingar og finnur þeim samningi sem hér er til meðferðar allt til foráttu. Því hlýt ég að spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur: Er ræða hennar inngangur að vantrauststillögu á hæstv. iðnaðarráðherra?

Ég minnist þess ekki í annan tíma að við hér í þinginu höfum þurft að hlusta á aðrar eins ávirðingar á ráðherra sitjandi í ríkisstjórn af einum úr stjórnarliðinu eins og hér fór fram. Að saka hæstv. ráðherra um ábyrgðarleysi og skapa falskar vonir og væntingar á sama tíma og viðkomandi umræddur ráðherra, ásamt ríkisstjórninni, kynnir fyrir þjóðinni tillögur um 4.000 störf sem eigi að leitast við að skapa hér á Íslandi á næstu missirum. Sá samningur og sú uppbygging iðnaðar sem verið er að ræða um í Helguvík hlýtur að vera hluti af þeim áformum um að skapa svo mörg störf. Ef það eru ábyrgðarleysi og falskar væntingar sem þarna eru á ferðinni hljótum við að kalla eftir frekari upplýsingum um það frá hæstv. ráðherra en ekki síst frá þeim hv. þingmanni sem hér talaði.