Heimild til samninga um álver í Helguvík

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 20:26:35 (5227)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:26]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn hv., Álfheiður Ingadóttir, talar um að hún sitji uppi með erfðagóss og frumvarpið sem hér er verið að fjalla um og snýst um uppbyggingu atvinnutækifæra í kringum álver í Helguvík, sé mikið vandræðaerfðagóss. Er þá ekki viðfangsefnið „ríkisstjórn á Íslandi“ eitt allsherjarvandræðaerfðagóss sem hv. þingmenn Vinstri grænna vilja helst ekki taka þátt í að sinna?

Verður að líta svo á í ljósi orða hv. þingmanns að tilkynning ríkisstjórnarinnar, sem sett var í gegnum fjölmiðla frá Þjóðmenningarhúsinu fyrir stuttu af hálfu forsætisráðherra og fjármálaráðherra, samflokksmanni þingmannsins, hafi verið ábyrgðarleysi og ómarktækt? Það sé ekki hægt að gera ráð fyrir uppbyggingu í Helguvík og þess vegna sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að þau atvinnutækifæri sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynntu að gætu orðið til á næstu missirum, verði ekki að veruleika? Á að líta svo á að þingmaðurinn muni koma í veg fyrir þetta og að stjórnarflokkurinn Vinstri grænir hafi dregið þau áform til baka? Það er afar mikilvægt að það komi skýrt fram í þessari umræðu: Hvað ætla Vinstri grænir sér með þetta? Á að snúa við? Á að tilkynna á morgun að hætt sé við að skapa þau störf sem tengjast uppbyggingu álvers í Helguvík?