Heimild til samninga um álver í Helguvík

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 20:28:42 (5228)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[20:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að endurtaka það sem ég sagði áðan og kemur fram í yfirlýsingu þingflokks Vinstri grænna: Iðnaðarráðherra er kunnug andstaða þingmanna Vinstri grænna við málið og að þeir hafi ekki heitið stuðningi við það á Alþingi. Það er alveg kýrskýrt, enda þarf þessi afstaða ekki að koma nokkrum manni á óvart. Það þarf engum hugsandi manni sem fylgst hefur með í stjórnmálum undanfarin ár að koma það á óvart að Vinstri hreyfingin – grænt framboð eða þingmenn hennar á Alþingi styðji ekki samning eins og þann sem hér liggur frammi.

Við höfum rætt í andsvörum nokkuð um það sem ég kalla falsvonir sem verið er að vekja fólki um skjóta lausn í atvinnumálum með byggingu þessa álvers en minna hefur farið fyrir áhyggjum manna af þeirri staðreynd sem ég dró upp í ræðu minni áðan hvaða skorður er verið að setja við skatttekjur ríkissjóðs á komandi árum. Í 20 ár verður, samkvæmt þessum samningi, ekki hægt að hækka tekjuskattshlutfallið á það fyrirtæki sem hér um ræðir enda þótt það verði gert á allan annan iðnað á Íslandi og á þau álver önnur og stóriðjufyrirtæki sem hér starfa.

Eins er með þessum samningi komið í veg fyrir að lagður verði skattur á vaxtatekjur. Þetta eru stóralvarleg atriði sem ég vil leyfa mér að ítreka gagnrýni mína á og það að hér er um erfðagóss að ræða. Þetta er mál frá tíð fyrri ríkisstjórnar sem þáverandi og núverandi hæstv. iðnaðarráðherra skrifaði undir og skuldbatt sig um leið að leggja það fyrir Alþingi. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir það, að sjálfsögðu ekki. Það þýðir því ekki að (Forseti hringir.) gagnrýna okkur fyrir að standa við afstöðu okkar í þessum málum (Forseti hringir.) eða snúa út úr henni.