Heimild til samninga um álver í Helguvík

Miðvikudaginn 11. mars 2009, kl. 21:28:02 (5239)


136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[21:28]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki hægt að horfa á þetta með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir, að við séum að girða fyrir tekjuöflun til framtíðar (ÁI: Tuttugu ár.) vegna þess að ef við gerum ekki fjárfestingarsamning sem þennan er algerlega óljóst að af þessum framkvæmdum verði. Það er því ekki hægt að stilla þessu upp með þessum hætti.

Svo er það að þetta með einkavæðinguna og einkavinavæðinguna, þetta er eitthvað sem fólk hamrar á, hv. þingmenn hamra á þessu en rökstyðja aldrei sitt mál. Þetta er bara einhver klisja sem gengur og mjög vinsæl af hálfu þeirra sem vilja koma höggi á einkavæðinguna. Ég vil halda því til haga að auglýst var eftir áhugasömum kaupendum að þessum bönkum og fimm aðilar gáfu sig fram. (ÁI: Hvað sagði formaður einkavæðingarnefndar?) Þrír voru taldir hæfir til að kaupa banka og farið var í viðræður við þá og þeim viðræðum lauk með því að sala átti sér stað og ég ætla ekki að telja upp hverjir það voru sem keypti. Síðan segir hv. þingmaður: Og verðið í engu samræmi við það sem eðlilegt hefði verið. Þetta er líka ósköp ódýrt að setja fram með þessum hætti en sannleikurinn er bara annar. Verðið var í samræmi við það sem eðlilegt var.

Ef ríkið hefði átt eitthvað í bönkunum hefði þetta þá farið á annan veg? Ég lít ekki þannig á að þó að ríkið hefði haft einn fulltrúa í þessum bankastjórnum, ætli hann hefði ekki verið jafnblindur á hlutina og aðrir voru? Allir „kóuðu með“ nema kannski hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér.