Iðnaðarmálagjald

Fimmtudaginn 12. mars 2009, kl. 15:19:20 (5315)


136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

iðnaðarmálagjald.

357. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. iðnaðarnefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum. Nefndin fékk á fund sinn þegar hún fjallaði um málið Guðrúnu Þorleifsdóttur, lögfræðing í iðnaðarráðuneyti. Markmið frumvarpsins er að innleiða nýjan staðal um atvinnugreinaflokkun fyrir álagningu iðnaðarmálagjalds þannig að í stað ÍSAT 95 staðalsins komi ÍSAT 2008. Í frumvarpinu er lögð til ein breyting sem er eingöngu af tæknilegum toga. Að öðru leyti eru ekki gerðar efnisbreytingar á álagningunni og óbreytt hvaða starfsemi er gjaldskyld.

Það kom fram í máli gests okkar, Guðrúnar Þorleifsdóttur úr iðnaðarráðuneyti, að haft hefði verið samband við ríkisskattstjóra sömuleiðis til að fara yfir þessar flokkanir og þarna hefði eingöngu verið um að ræða speglun á milli kerfa þannig að þetta á ekki að hafa áhrif til breytinga á gjaldtöku á einn eða neinn hátt.

Við leggjum því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og undir álitið rita ásamt mér hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Herdís Þórðardóttir, Kristján Þór Júlíusson og Grétar Mar Jónsson.