Heimsókn fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 15:10:43 (5369)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

heimsókn fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:10]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Ég fagna þessum upplýsingum og þeirri staðreynd að núverandi ríkisstjórnin heldur sig við það sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið í þessum málum og hefur þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar forustumanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki horfið frá þeirri stefnu að eiga náið og gott samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Því ber að fagna og ég fagna þeim upplýsingum og útskýringum sem komu frá hæstv. fjármálaráðherra um þetta.

En ég vil líka vekja athygli á því hversu jákvæðum augum Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lítur á stöðuna á Íslandi þrátt fyrir allt. Það hefur komið fram á blaðamannafundi, það kom fram í sjónvarpsviðtali við formann sendinefndar sjóðsins sem flutt var í gærkvöldi og í meginatriðum staðfestir þetta það sem við í fyrri ríkisstjórn sögðum. Þegar líða tekur á þetta ár og á næsta ári mun verða efnahagslegur viðsnúningur og það er mjög mikilvægt að núverandi ríkisstjórn glopri ekki niður þeim möguleikum og því tækifæri.