Lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 15:13:17 (5371)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:13]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er af sama meiði og hér var borin upp af hv. þm. Geir H. Haarde. Þegar lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var tekið í lok nóvember var skýrt tekið fram að þegar fyrsta greiðsla hefði borist mundu greiðslur berast á u.þ.b. þriggja mánaða fresti að undangenginni endurskoðun á stjórnvaldsaðgerðum og viðbrögðum markaðarins við þeim. Innan eins eða tveggja mánaða frá því að lánið var samþykkt átti önnur greiðsla að koma. Nú eru fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins horfnir af landi brott en annar hluti lánsins skilaði sér ekki. Það má því ljóst vera að eitthvað vantar enn þá upp á að við uppfyllum skilyrði sjóðsins. Það vakti reyndar sérstaka athygli að fulltrúi sjóðsins, Mark Flanagan, lýsti ánægju sinni með efnahagstillögur framsóknarmanna, ekki síst hugmyndina um 20% niðurfellingu skulda, á fundi hans með formanni flokksins. Ánægjan var ekki síst fólgin í því að hann taldi ekki gerlegt eða með öðrum orðum taldi hann óframkvæmanlegt að meta hvert einasta lán, hverja einustu fjölskyldu og hvert einasta fyrirtæki í landinu.

Áður en hann fór héðan hafði hann þó tekið tillit til sitjandi stjórnvalda og skipt um skoðun sem hlýtur að vera umhugsunarefni. En ég hef þó meiri áhuga á að vita hvaða tæknilegu atriði, eins og það var orðað, eru ekki uppfyllt enn þá og spyr hæstv. fjármálaráðherra í anda opinna vinnubragða og svona „allt uppi á borðinu stemmningarinnar“ sem ríkisstjórnin var búin til við: Hvaða atriði eru þetta og mun önnur greiðsla lánsins berast að þeim uppfylltum og þá hvenær?