Álit Samkeppniseftirlitsins um Bændasamtökin

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 15:25:03 (5379)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

álit Samkeppniseftirlitsins um Bændasamtökin.

[15:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir skömmu var birt álit Samkeppniseftirlitsins um Bændasamtökin sem vakið hefur nokkuð mikla athygli þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þau hefðu brotið gegn samkeppnislögum og er gert að greiða 10 millj. kr.

Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. viðskiptaráðherra til að heyra viðhorf hans til þessa máls. Sannast sagna vekur þessi niðurstaða Samkeppniseftirlitsins mjög mikla furðu. Við vitum öll að Bændasamtökin hafa mjög mikla sérstöðu. Þau hafa samkvæmt sínum eigin samþykktum það hlutverk að beita sér fyrir bættum kjörum bænda. Það vita allir jafnframt að þessi samtök eru frábrugðin flestum samtökum fyrirtækja, ef við getum kallað það svo, þau eru öðrum þræði félagasamtök en þau eru líka stéttarfélag. Þess vegna er algerlega óhjákvæmilegt að á vettvangi Bændasamtakanna, á búnaðarþingi, sé fjallað um kjör bænda svo sjálfsagt sem það í rauninni er. Þetta var gert í fyrra eins og endranær á opnum fundum Bændasamtakanna, á búnaðarþinginu, þar sem öll þessi mál voru síðan tíunduð samviskusamlega í fjölmiðlum. Var það tilefni fyrir Samkeppniseftirlitið að velta því fyrir sér hvort með þessu væri verið að brjóta gegn samkeppnislögum.

Þetta vekur auðvitað mjög mikla furðu sannast sagna vegna þess að það er óhjákvæmilegt að Bændasamtökin fjalli um þessi mál. Þau fjalla um kjör bænda og það er vandfundin önnur leið en sú að gera það í opinberum umræðum eins og þarna fóru fram.

Ég vil því spyrja hæstv. viðskiptaráðherra og fá að heyra viðhorf hans til þessa máls, hvort hann telji óeðlilegt að Bændasamtökin hafi möguleika á því að ræða sín mál á opnum fundi á búnaðarþingi og hvort hann telji að umræður af því tagi geti verið brot á samkeppnislögum eins og Samkeppniseftirlitið virðist telja.