Fjármálaeftirlitið og bankarannsókn

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 15:33:45 (5384)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

Fjármálaeftirlitið og bankarannsókn.

[15:33]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og sérstaklega tækifærið til að útskýra stöðu þessara mála. Ég vil fyrst taka fram að ég hef þegar beitt mér í þessu máli, m.a. átti ég fund með forsvarsmönnum Fjármálaeftirlitsins, sérstökum saksóknara og dómsmálaráðherra í síðustu viku þar sem við fórum yfir þessi mál. Ég hef reyndar einnig fundað sérstaklega með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins vegna þessa. Út úr þeim samræðum öllum kom m.a. að það er vilji núverandi stjórnenda Fjármálaeftirlitsins og væntanlega sérstaks saksóknara líka að þetta mál verði leyst: Meðal annars á þann hátt að þær athuganir sem koma upp úr þessum endurskoðunarskýrslum og gefa tilefni til þess að mál fari til sérstaks saksóknara fari þangað sem fyrst og að því ferli verði flýtt eins mikið og hægt er. Einnig að sérstakur saksóknari eða starfsmenn hans verði fengnir til að aðstoða Fjármálaeftirlitið við að greina hvaða mál eru þess eðlis að best sé að þau fari sem fyrst til sérstaks saksóknara og svo reyndar einnig að Fjármálaeftirlitið verði eftir föngum sérstökum saksóknara til aðstoðar við að rannsaka þau mál sem fara inn á borð hjá honum, enda er ákveðin sérþekking á bankarekstri og löggjöf um verðbréfaviðskipti og fjármál hjá Fjármálaeftirlitinu.

Ég veit ekki betur en að þessi mál séu þegar komin í allgóðan farveg. Ef svo fer að frumvarp dómsmálaráðherra sem nú er fyrir þinginu verður samþykkt getur sérstakur saksóknari fengið þessar skýrslur án þess að Fjármálaeftirlitið þurfi sérstaklega að blessa það og það kann að vera ágætislausn, en jafnvel þótt það verði ekki samþykkt tel ég einsýnt að þessi mál séu komin í góðan farveg.