Endurreisn bankakerfisins

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 15:38:27 (5387)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[15:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að rifja upp atburði haustsins þegar þingið ákvað að setja neyðarlög vegna þeirrar stöðu sem var komin upp á fjármálamörkuðum. Það var ljóst strax frá upphafi að tilgangur þeirrar löggjafar var einkum tvíþættur, í fyrsta lagi að tryggja að hér væri áfram starfhæft bankakerfi, að fjármálastarfsemin í landinu legðist ekki af, og ég vil segja að þeim tilgangi náðum við fullkomlega. Við náðum þrátt fyrir nokkra hnökra í haust að hér væri starfhæft bankakerfi, fjármálastarfsemin lagðist ekki af þrátt fyrir að stóru bankarnir þrír rötuðu allir í vandræði.

Í annan stað var það augljós tilgangur með lagasetningunni að tryggja innstæður og við veittum þeim forgang í eignir bankanna og með því komst ró á fjármálamarkaðina og allar innstæður í fjármálakerfinu voru með þessu tryggðar.

Það má segja að í þriðja lagi hafi jafnframt verið markmið með inngripi þingsins að tryggja að þær skuldir sem voru í fjármálakerfinu yrðu ekki með einum eða öðrum hætti ríkisvæddar. Þingið samþykkti á haustdögum fjárlög þar sem gert var ráð fyrir því að til þess að tryggja endurreisn fjármálakerfisins væri hægt að verja af almannafé allt að 385 milljörðum sem gaf ákveðnar væntingar um það hversu stórt bankakerfi stæði hér til að endurreisa. En auðvitað var það þó þannig á þeim tíma þegar þingið var með fjárlög til umfjöllunar að mikil óvissa ríkti um það hversu stórt kerfið yrði að lokum. Í millitíðinni hafa borist fregnir af því, óljósar reyndar, að ríkisstjórnin hafi fengið mat frá ráðgjöfum sínum um eignasöfnin í heild sinni. Þar kemur fram samkvæmt óljósum heimildum að óvenjuhátt hlutfall af lánasafni bankanna séu útlán sem ekki munu innheimtast nema að hluta, í sumum tilfellum mun ekki innheimtast að neinu leyti og einungis í kringum 30% af útlánunum muni innheimtast að fullu eða séu lán sem ekki þurfi að hafa áhyggjur af.

Ég vil bera hér upp við hæstv. viðskiptaráðherra hvort ekki komi til greina að deila með þinginu þeim gögnum sem ríkisstjórnin hefur undir höndum í þessu efni til að þingið sé betur meðvitað um hvers konar bankakerfi við erum á leiðinni að fara að endurreisa hér.

Hér hefur mikið verið í umræðunni og ég efast ekki um að þingmenn kannist við að það er rætt um að nýja bankakerfið kaupi eignir af gamla bankakerfinu með 50% afslætti. Hvaðan kemur sú tala? Það er tala sem er komin á flot löngu áður en endanlegt mat liggur fyrir á virði eignanna sem til stendur að stofna efnahagsreikning nýju bankanna með. Ég vil bera undir hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann kannist við að nýja bankakerfinu verði komið á fót með u.þ.b. 50% afslætti.

Öll þessi umræða vekur mann til umhugsunar vegna þess að einungis 10% frávik í heildarvirði eigna nýja bankakerfisins mundi leiða til þess að allt þetta eigið fé mundi fuðra upp, 385 milljarðarnir. Ef kerfið er svona stórt eins og hér er gefið til kynna og óvissan um virði eignanna er svona mikil kemur 10% ofmat á heildareignunum til með að þurrka upp alla þessa 385 milljarða sem við vorum tilbúin til að leggja nýja bankakerfinu til.

Ég vil bera það undir hæstv. viðskiptaráðherra hvernig til standi að koma til móts við óvissuna í þessu efni vegna þess að sannarlega er enginn hér inni sem er tilbúinn til að taka slíka áhættu við endurreisn bankakerfisins og við hljótum að leggja okkur fram við að lágmarka áhættuna sem allra mest þegar við komum nýju bönkunum á fót.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin sem hann situr í tryggja að í samningum við gömlu bankana og kröfuhafa þess verði gengið úr skugga um að reynist eignir bankanna ekki eins verðmiklar og núna er giskað á að þær séu muni það ekki lenda á skattborgurum þessa lands að taka reikninginn fyrir því? Hér er um verulega háar tölur að ræða, 385 milljarðar eru heimildin sem þingið veitti ríkisstjórninni í þessu efni og við höfum gríðarlega mikla hagsmuni af því að hér séu menn ekki að misreikna sig. Einungis í vetur upplifðum við það á örfáum mánuðum (Forseti hringir.) að skilanefnd Landsbankans dró úr mati (Forseti hringir.) sínu á virði eigna bankans eða reyndar jók við virði eigna bankans í 72 milljarða á nokkrum vikum og af því má sjá hversu mikil (Forseti hringir.) óvissan er í þessu efni.