Endurreisn bankakerfisins

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 15:51:20 (5390)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[15:51]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér er orðin um þau tímamót sem fram undan eru í skilum á milli gömlu og nýju bankanna. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, það er mjög mikilvægt að ganga frá nýjum efnahagsreikningum fyrir nýju bankana.

Ég minni á að menn voru býsna bjartsýnir í haust. Þegar Landsbankinn féll ætluðu menn skilanefndinni 30 daga til að koma með nýjan efnahagsreikning. Þegar Glitnir féll var talan komin upp í 60 daga og þegar Kaupþing féll töluðu menn um 90 daga. Nú eru liðnir fimm mánuðir og enn er okkur sagt að við þurfum að bíða eftir þessum tímamótum fram að næstu mánaðamótum.

Ég legg áherslu á að þeir 385 milljarðar sem fyrirhugað er samkvæmt fjárlögum að hægt verði að setja til endurfjármögnunar nýju bankanna eru ekki til þess að leysa vanda bankanna sem slíkra, heldur til að endurreisa efnahagslíf í landinu á heilbrigðari grunni. Það er ýmislegt sem þarf að endurskipuleggja í bankakerfinu og bankaþjónustu í landinu sem mælist ekki bara í krónum og aurum á efnahagsreikningi — eða á maður kannski að segja hundruðum milljarða og milljörðum. Menn hafa beðið býsna lengi eftir slíkum aðgerðum meðan þeir eru að bíða eftir þeim tímamótum sem hér eru til umræðu.

Ég vil hlaupa aðeins á 2–3 atriðum í því sem varðar innra skipulag bankanna, þ.e. það þjónustuhlutverk sem þeir hljóta að þurfa að gegna og þá kröfu sem þarf að vera hægt að gera til þeirra um gagnsæ og fagleg vinnubrögð. Burtu með ofurlaunin og einnig þarf launajöfnuður að ríkja milli kynja. Ég tel að það hafi dregist úr hömlu að auglýsa eftir bankastjórum (Forseti hringir.) nýju bankanna og eins öðrum lykilstarfsmönnum bankanna.