Endurreisn bankakerfisins

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 15:53:38 (5391)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[15:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að við skulum ræða endurreisn fjármálakerfisins sem er eitt brýnasta úrlausnarmálið sem við stöndum frammi fyrir á þessum erfiðu tímum. Ég þakka hæstv. ráðherra Gylfa Magnússyni fyrir þau svör sem hann gaf hér svo langt sem þau náðu því að mér finnst mörgum spurningum ósvarað er snerta sérstaklega stöðu fjármálakerfisins og hvernig menn ætli sér að ganga frá yfirfærslu á eignum gömlu bankanna yfir í þá nýju. Ég tek undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni að við þurfum að fá svör við því hvernig menn ætla að haga þeim málum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Standa yfir einhverjar formlegar viðræður við erlenda kröfuhafa um aðkomu að nýju bönkunum, þá sérstaklega eignaraðild? Ég tel að menn þurfi að halda vel á spilunum í þessum efnum og ég minni á að við höfum á vettvangi Alþingis talað sérstaklega fyrir því að menn gangi frá stofnefnahagsreikningum þessara nýju banka því að án þeirra geta bankarnir ekki starfað í eðlilegri mynd. Við köllum eftir því að þeirri vinnu verði hraðað, herra forseti.

Það er athyglisvert að hlusta á málflutning Samfylkingarinnar í umræðunni. Hv. þm. Árni Páll Árnason lagði sérstaka lykkju á leið sína í tveggja mínútna langri ræðu til að hnýta í Framsóknarflokkinn, þá sérstaklega formann hans, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, og efnahagstillögurnar sem við höfum lagt hér fram. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur lagt fram heildstæðar efnahagstillögur gagnvart heimilum og fyrirtækjum og við hljótum að kalla eftir því að aðrir stjórnmálaflokkar fari að gera hið sama.

Ég spyr hæstv. viðskiptaráðherra hvaða skoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi á sparisjóðakerfinu íslenska og íslenskum sparisjóðum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort rætt hafi verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um aðkomu sparisjóðanna að endurreisn bankakerfisins. Ég ætla að játa það, hæstv. forseti, að mér finnst núverandi ríkisstjórn heldur dauf í því (Forseti hringir.) að sinna málefnum sparisjóðanna sem við framsóknarmenn (Forseti hringir.) viljum reisa og ég spyr um álit hæstv. ráðherra á málefnum sparisjóðanna.