Endurreisn bankakerfisins

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 16:07:17 (5397)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[16:07]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu og þakka sérstaklega hæstv. ráðherra fyrir framlag hans til hennar. Við erum að ræða eitt allra mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag og staða mála er grafalvarleg. Atvinnulífið er í miklum vanda með að fá bankaþjónustu og fjármögnun. Það er mikið kvartað í atvinnulífinu yfir þessari stöðu og það er hætt við því við þessar aðstæður að fyrirtæki hreinlega stöðvist með tilheyrandi atvinnuleysi sem þegar er orðið allt of mikið.

Eitt af því sem við höfum rætt hér í dag er meðferð á kröfum bankanna, m.a. við skil milli gömlu og nýju bankanna. Ég legg áherslu á að þar gildi ákveðnar reglur með gagnsæi og jafnræði vegna þess að það er mjög mikilvægt við þessar aðstæður að ekki komi upp tortryggni og vantraust almennings gagnvart þessum fjármálastofnunum og því sem gert er því að það er ekki til að bæta stöðuna. Ég legg mikla áherslu á að þarna verði unnið eftir ákveðnum reglum.

Ég vil nefna eitt atriði sem ekki hefur komið fram í umræðunni og mér finnst almennt lítið rætt í tengslum við endurreisn bankanna, starfsfólk bankanna, hið almenna starfsfólk. Í þessu starfsfólki eru gríðarlega mikil verðmæti. Við vitum að starfsfólk bankanna hefur unnið við mjög erfiðar aðstæður undanfarna mánuði, það hefur verið mikil óvissa og andlega erfitt fyrir fólkið að starfa í bönkunum og ég legg því áherslu á það að við endurreisn bankakerfisins verði sérstaklega hugað að þessum þætti. Mannlegi þátturinn má alls ekki gleymast í þessu öllu saman þegar við ræðum aðallega um krónur og aura eða milljarða.