136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

420. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. umhvn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli sem varaformaður umhverfisnefndar fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar. Frumvarpið er flutt af umhverfisnefnd og er hún einhuga í afstöðu sinni til þess.

Það felur í sér í fyrsta lagi breytingu á löggjöf umhverfisráðuneytisins, þ.e. breytingu á lögum um brunavarnir. Í öðrum þætti er breyting á löggjöf viðskiptaráðuneytisins, þ.e. breyting á löggjöf um öryggi raforkuvirkja o.fl. og loks í III. kafla er breyting á lögum um Neytendastofu og talsmann neytanda, með síðari breytingum.

Frumvarpið er til komið vegna samkomulags umhverfisráðuneytis og viðskiptaráðuneytis um að færa rafmagnsöryggissvið Neytendastofu til Brunamálastofnunar og þar með yfirstjórn málaflokksins frá viðskiptaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Er það mat ráðuneytisins að málaflokkurinn falli mun betur að þeim verkefnum sem tilheyra Brunamálastofnun en Neytendastofu þar sem rafmagnsöryggi bygginga tengist óhjákvæmilega brunavörnum. Er hins vegar lagt til að Neytendastofa sinni áfram því hlutverki sem snýr að markaðseftirliti með rafföngum en það snýr að vöruöryggi og þar með því hlutverki Neytendastofu er snýr að neytendum.

Frumvarpið er tekið út úr frumvarpi til mannvirkjalaga sem nefndin hafði til umfjöllunar á síðasta þingi en þar var lagt til að eftirlit með rafmagnsöryggi færi undir nýja byggingarstofnun sem átti að yfirtaka verkefni Brunamálastofnunar. Alþingi kláraði ekki málið og frumvarpið varð ekki að lögum.

Frumvarpið sem umhverfisnefnd leggur fram leggur til að rafmagnsöryggissvið Neytendastofu verði fært til Brunamálastofnunar og heyri þar með undir umhverfisráðuneytið í stað viðskiptaráðuneytisins áður. Er sátt um þessa yfirfærslu í báðum ráðuneytum.

Þar sem rafmagnsöryggi bygginga tengist óhjákvæmilega brunavörnum á málaflokkurinn betur heima hjá Brunamálastofnun. Neytendastofa mun eftir sem áður sinna markaðseftirliti raffanga þar sem slíkt eftirlit snýr að öryggi og samræmist því verkefni Neytendastofu. Það er nauðsynlegt að tryggja hnökralausa framkvæmd mála og gera þær breytingar sem hér voru lagðar til í frumvarpi til mannvirkjalaga.

Breytingarnar skýra sig að öðru leyti sjálfar og ég vísa til frumvarpsins að öðru leyti.