Náms- og starfsráðgjafar

Mánudaginn 16. mars 2009, kl. 17:15:14 (5417)


136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

náms- og starfsráðgjafar.

422. mál
[17:15]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem bara hér í ræðustól til að lýsa stuðningi við þetta mál. Ég held að það sé vel til fundið að klára það nú og ég sé að menntamálanefnd flytur málið, þannig að rík samstaða ætti að vera um það hér í þingsal.

Ég vil hins vegar taka sérstaklega undir orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hér áðan varðandi leyfisveitinguna og það sem kveðið er á um í 4. gr. að þess sé gætt að störf þeirra sem hafa unnið við þessa grein á undanförnum árum — og hafa margir kannski mikla reynslu — séu ekki lögð af til framtíðar heldur fái þeir viðurkenningu á vinnu sinni og þekkingu, því þekking er ekki bara sótt í háskóla, heldur líka í störfin og umgengni við nemendur og þjálfun í því að umgangast fólk. Ég vil því leggja því sérstaklega lið, hæstv. forseti, að til þess sé litið um leið og við lögfestum þetta starfsheiti til framtíðar að gera kröfu til þess að það byggi á ákveðnu námi eins og mörg önnur störf í þjóðfélaginu og ég lýsi einfaldlega stuðningi okkar við þetta mál.