Ríkisendurskoðun

Þriðjudaginn 17. mars 2009, kl. 14:37:45 (5446)


136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

Ríkisendurskoðun.

416. mál
[14:37]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun. Hv. þm. Gunnar Svavarsson, 1. flutningsmaður og formaður fjárlaganefndar, hefur gert mjög góða grein fyrir frumvarpinu, farið yfir greinargerð og ýmislegt fleira. Ég vil segja að ég tel að um grundvallarmál sé að ræða og tek undir með síðasta hv. ræðumanni, það var ekki í hálfkæringi sagt, held ég, hjá 1. flutningsmanni þegar hann talaði um að þetta væri merkilegt mál því það varðar eitt af grundvallarhlutverkum fjárlaganefndar og þingsins, þ.e. að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og þeim fyrirtækjum sem ríkið á. Þetta er mikið grundvallarmál.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um málið að öðru leyti en því að taka undir það sem fram hefur komið. Ég legg fyrir mitt leyti mikla áherslu á að frumvarpið verði samþykkt sem fyrst. Það varðar það sem við höfum svo margoft rætt í umræðum, t.d. um fjárlög, þ.e. aðgang fjárlaganefndar að upplýsingum. Ég get talað af nokkurri reynslu um það og ég lýsi þeirri skoðun minni að fjárlaganefnd hefur allt of takmarkaðan aðgang að upplýsingum um framkvæmd fjárlaga hverju sinni, um rekstur stofnana o.s.frv. Upplýsingar berast fjárlaganefnd, ég held ég megi fullyrða alltaf of seint í raun og veru til að það eftirlit sem nefndinni ber að rækja geti virkað eins og skyldi. Ég held í rauninni að mikil orsök þessa sé upplýsingakerfið sem slíkt. Fjárlaganefnd ætti auðvitað að hafa beinan aðgang inn í upplýsingakerfi fjármálaráðuneytisins og geta sótt þangað þær upplýsingar sem nefndin þarf á að halda og henni ber að fá til að rækja hlutverk sitt. Þar held ég að þurfi að gera átak til úrbóta. Ég er ekki eingöngu að tala um þau E-hluta fyrirtæki sem hér eru fyrst og fremst til umræðu, heldur kerfið í heild sinni. Við höfum margoft upplifað það í fjárlaganefnd, að ræða um ríkisfjármálin og okkur skortir hreinlega upplýsingar til að slík umfjöllun geti verið, ég leyfi mér að segja af fullu viti.

Þetta er stórt mál, virðulegur forseti, sem hér er til umfjöllunar. Í tillögugreininni er lagt til að nefndarmenn séu bundnir þagnarskyldu þegar það á við, ég tel það mjög eðlilegt. Þegar við ræðum um þau fjölmörgu fyrirtæki sem hv. þm. Gunnar Svavarsson fór yfir, nánast heilan frumskóg af alls konar fyrirtækjum í eigu ríkisins, liggja ýmsar upplýsingar hjá einstaka fyrirtækjum sem þarf auðvitað að vera þagnarskylda um. Það er bara eðlilegt. Þetta ákvæði er því mikilvægt.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, ég vísa bara í framsögu hv. þm. Gunnars Svavarssonar. Að málinu standa allir þeir sem eru í fjárlaganefnd núna og þar að auki tveir sem voru í henni fyrir áramótin. Þeir hv. þingmenn hafa gert sér fulla grein fyrir málinu og þörf þess að lagabreytingin verði að veruleika. Ég held að aðrir hv. þingmenn geti fullvel treyst þeirri dómgreind sem þessir hv. þingmenn hafa eftir þá reynslu sem þeir hafa farið í gegnum í störfum sínum í fjárlaganefnd.

Ég ítreka, virðulegur forseti, að ég legg áherslu á að frumvarpið fái skjóta afgreiðslu á þessu þingi því að hér er um stórmál að ræða.