Ríkisendurskoðun

Þriðjudaginn 17. mars 2009, kl. 14:51:23 (5450)


136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

Ríkisendurskoðun.

416. mál
[14:51]
Horfa

Flm. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og ætla ekki að víkja að lögum um opinber hlutafélög. Hins vegar vil ég ítreka það sjónarmið fjárlaganefndarmanna að það sé mikilvægt að fjárlaganefndin fái þessar upplýsingar. Það geti þá hvílt leynd yfir ákveðnum hluta þeirra ef Ríkisendurskoðun kveður svo á um til þess meðal annars að Alþingi geti notað upplýsingarnar. Auðvitað er það sjónarmið eins og hv. þm. Pétur Blöndal kemur með að þegar umfang til að mynda ríkisbankanna verður orðið það mikið að fjölmörg félög verða þar í umsýslu, eins konar dótturfélög, þá þurfi Alþingi að bera þá ábyrgð að fylgjast með upplýsingum er varðar þau líkt og gerist með önnur félög í meirihlutaeigu ríkisins.

Ég fór yfir það áðan að fjárlaganefndin heldur úti skrá yfir E-hluta fyrirtæki, stjórnir þeirra og framkvæmdastjóra. Vissulega er það þannig að sú skrá getur ekki endilega verið dagrétt samanber umræður um skrár yfirleitt og dagréttingu þeirra en ég nefndi það áðan að nýlega hefðu bæst í þennan hóp fyrirtækin Íslandsbanki hf., Nýi Kaupþing banki hf., NBI hf. sem er hinn nýi Landsbanki, Keflavíkurflugvöllur ohf. og síðan til að mynda félag sem hefur verið til umræðu núna í fjárlaganefndinni, þ.e. Austurhöfn-TR ehf. en ríkissjóður á 54% í þessu félagi.

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn geta nálgast þennan lista úti á nefndasviði hjá fjárlaganefndinni ef áhugi er á því en síðan eru öll þessi félög gerð upp í E-hluta ríkisreiknings og í ríkisreikningi ársins 2008 munu væntanlega þessir þrír nýju ríkisbankar auk annarra félaga sem eru á þriðja tug verða gerð upp í E-hluta ríkisreiknings.

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá hv. þingmönnum. Ég mæltist til þess áðan að þessu frumvarpi yrði vísað til fjárlaganefndar sem mundi kalla til stjórnsýslustofnanir og meðal annars Ríkisendurskoðun til að fara yfir málið og fjárlaganefndin er á næstu dögum að fara yfir lokafjárlögin fyrir árið 2007. Það er búið að fara yfir ríkisreikning vegna 2007. Þess vegna væri tilhlýðilegt að afgreiða þetta fljótt og vel því ég er þess fullviss að málið sé í raun jafnstórt og ég vék að í upphafi þó svo það sé kannski ekki eitt af stærstu málum sem hafa verið afgreidd á þinginu. En þetta mál veitir þinginu tækifæri til að fjalla mun frekar um ýmis mál sem tengjast E-hluta stofnunum og hluta af ríkisrekstrinum og ég tel að það sé ekki vanþörf á. Síðan um leið vil ég árétta að það er afar mikilvægt fyrir Alþingi að fá aðgang að upplýsingakerfum ríkisins og að starfsmenn fjárlaganefndar fyrir hönd fjárlaganefndar og þingsins hafi beinan aðgang að kerfunum þannig að hægt sé að fá dagréttar upplýsingar. En upplýsingastreymið eins og það er í dag, þótt allir séu boðnir og búnir til að mynda í ráðuneytunum að taka saman upplýsingarnar, þá er það stundum þannig að þær koma því miður of seint. Við þurfum að vera á tánum í okkar störfum og þar af leiðandi skiptir máli að upplýsingarnar séu sem réttastar og réttastar upplýsingar koma fram ef þær eru dagréttar hverju sinni og með beinum aðgangi að upplýsingakerfunum gætum við náð því fram.

Ég hef sem formaður fjárlaganefndar óskað eftir því ítrekað við fjármálaráðuneytið fyrir hönd fjárlaganefndar og í raun Alþingis. Ég bar þetta mál undir forseta þingsins og forstöðumann nefndasviðsins og allir eru sammála um að þessu þurfi að koma í lag. En þetta er kannski eitt af því sem síðan þarf að taka skrefið fram á við og framkvæma og það er von mín að fyrir lok þessa þings verði þetta komið í lag. Ef ekki þá verði það hlutverk nýs formanns fjárlaganefndar að fylgja þessu eftir fyrir hönd þingsins.