Grunnskólar

Mánudaginn 23. mars 2009, kl. 16:38:27 (5677)


136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

grunnskólar.

421. mál
[16:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni almennt fyrir vel unnin störf í menntamálanefnd í gegnum tíðina og það er greinilegt í þessu máli líka enda náðist víðtæk samstaða um málið.

Engu að síður er samt eitt atriði sem ég velti fyrir mér og það er hver sparnaðurinn verður við það að prófin eru felld niður núna tímabundið. Ég held að hann geti hugsanlega verið 5 eða 10 milljónir en það leiðir auðvitað hugann að öðru og það er náttúrlega stóra myndin. Hver verður stóra myndin á fjármálum ríkisins á næsta ári, hver verður stóra myndin í menntamálunum á næsta ári?

Ég veit að hv. þingmaður er raungóður og raunsær maður á þann tíma sem við lifum núna og það kallar auðvitað á að við fáum hér svör frá hæstv. menntamálaráðherra líka til að við áttum okkur á því hvað framtíðin ber í skauti sér, hvað áætlunargerðin fyrir árið 2010 ber í skauti sér, hvar verður borið niður. Samræmdu prófin einu sinni, ein og sér, könnunarprófin, það dugar ekki að fella þau niður ein og sér, 5–8 milljónir hjálpa ekki menntamálunum í heild sinni. Ég spyr: Hvernig telur hv. þingmaður réttast að fara í þá vinnu að hagræða í menntamálunum til að halda uppi eftir sem áður víðtækri þjónustu, þ.e. að skólarnir verði áfram opnir? Við hljótum öll að vera sammála um að skólarnir verði áfram opnir öllum en um leið verðum við að ná tilætluðum árangri hvað fjárlög ríkisins varðar. Það er risamál fyrir framtíðina. Ég veit að hv. þingmaður er skynsamur maður og getur örugglega veitt mér svör og þó að mínúturnar hér séu bara tvær getum við tekið umræðu um þetta mál á eftir.