Grunnskólar

Mánudaginn 23. mars 2009, kl. 16:45:05 (5680)


136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

grunnskólar.

421. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel þann mikla áhuga sem hv. þingmaður hefur á menntakerfinu en ég held að það sé eiginlega vonlaust fyrir mig á tæpum tveimur mínútum að fara yfir allar þær tillögur sem ég gæti út af fyrir sig lagt á borðið og gætu nýst við fjárlagagerð næsta árs, ég held að það verði að bíða betri tíma.

Ég held hins vegar að það sem hv. þingmaður nefndi um sameiningu menntastofnana sé eitthvað sem eðlilegt er að skoða í því ástandi sem við lifum við nú. Ég held að sveitarfélögin hljóti einnig að taka þátt í því. Ég minni á að í breyttum lögum sem við samþykktum á síðasta þingi er einmitt opnað á þá leið að sameina leik- og grunnskóla og tónlistarskóla. Ef ég man rétt eru einhver sveitarfélög farin að hugleiða það og sum hafa jafnvel stigið þau skref. Því er eðlilegt að allt slíkt sé skoðað vandlega.

Ég held að við eigum líka að fara yfir stöðu rannsóknastofnana og velta henni fyrir okkur. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar um nokkurn tíma, svo ég taki sem dæmi, að því sé velt upp t.d. með Hafrannsóknastofnun, að hugsanlegt væri að koma þeirri starfsemi fyrir í háskólum. Þannig mætti dreifa henni á bæði Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og tryggja hana. Þá væru menn líka búnir að stíga skref sem ýmsir hafa verið að biðja um, að rannsóknastofnanir væru algjörlega sjálfstæðar í háskólastofnunum. Þar gæti þetta bæði verið hagræðing og um leið eflt háskólastofnanirnar sem slíkar.

Ég held því að afar mikilvægt sé að við nýtum þann tíma sem núna er til að skoða alla þessa hluti með opnum huga en með það sem grundvallarstef að tryggja þá þjónustu sem fyrir hendi er og efla hana frekar en hitt þó að við spörum hugsanlega einhverja peninga.