Grunnskólar

Mánudaginn 23. mars 2009, kl. 16:52:10 (5682)


136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

grunnskólar.

421. mál
[16:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum nefndarmönnum fyrir gott starf unnið í nefndinni. Ég tel þetta vera rétt skref sem tekið er í sátt við alla aðila, að afnema samræmdu prófin sem hefðu ella orðið núna þegar lagaskilin eru að verða og nýja kerfið er að taka við sér. Þetta er því eðlileg og skiljanleg breyting.

Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að hafa farið aðeins inn á rökstuðninginn með samræmdum prófum, þau hafa verið umdeild í samfélaginu og sitt sýnist hverjum hvað þau varðar. Ég held í fyrsta lagi að mikilvægt sé fyrir nemandann að hafa aðgang að samræmdum könnunarprófum, hvað svo sem við nefnum þau. Ég held líka að það sé mikilvægt fyrir foreldra, og tala þar af eigin reynslu, að geta fylgst með námsferli barna sinna og að ákveðið gæðaeftirlit sé, samræmt gæðaeftirlit sem nær inn í grunnskólana, og að það verði til þess að skólarnir eflist, foreldrar sjái á hvaða sviðum börnin geta bætt sig en ekki síður hitt að skólarnir eiga að nýta svona próf til að efla og styrkja sitt innra starf. Ég hvet því alla skóla eindregið til þess að gera það, enda hafa þeir staðið sig vel hvað þetta varðar, en nýta sér líka þau tækifæri sem felast í gömlu grunnskólalögunum og í hinum nýju.

Ég minnist þess til að mynda að grunnskólinn á Sauðárkróki náði við síðustu PISA-rannsókn mjög góðum árangri hvað niðurstöður rannsóknarinnar snerti. Fram kom í athyglisverðu viðtali við skólastjórann að hann og stjórn skólans, kennarar og fleiri, hefðu farið gaumgæfilega í það að fullnægja kröfum þágildandi laga um sjálfsmat skóla og það að þeir meti sjálfa sig og fóru mjög gaumgæfilega yfir það hvað hægt væri að gera til að efla starfið, kennsluna, innra starfið og þjónustuna sem er í boði innan skólans. Að mínu mati hefur þetta m.a. skilað þeim árangri að skólinn er nú í fremstu röð þegar kemur að niðurstöðum PISA-rannsóknar hér á landi. Því er hægt að sýna fram á að með markvissum vinnubrögðum innan skólakerfisins er hægt að bæta gæðin.

Ef við lítum yfir öll skólastigin er ljóst að við höfum verið að bæta inn mjög miklum fjármunum í íslenskt skólakerfi og við þurftum líka að gera það. Við þurftum að bæta sérþjónustuna, við þurftum að efla ákveðna grunnþjónustu innan skólakerfisins, á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Við þurftum einnig að taka á öðrum hlutum fyrir nokkrum árum á háskólastigi. Það vita allir hvað ég á við, við þurftum að fjölga háskólanemum. Fyrir um tíu árum vorum við með tiltölulega lágt hlutfall af háskólanemum. Við vildum fjölga þeim, fórum ákveðnar leiðir, blönduðum saman einkarekstri og opinberum rekstri og fjölguðum námstækifærum. Þetta voru pólitískar ákvarðanir undir forustu Sjálfstæðisflokksins sem leiddu til þess að við náðum því takmarki okkar að fjölga háskólanemum þannig að við erum í dag að útskrifa hlutfallslega fleiri háskólanema en þær þjóðir sem við alla jafna miðum okkur við og það er fagnaðarefni.

Það má heldur ekki gefa afslátt af þeim gæðum af skólastarfinu sem við þurfum að fylgja eftir innan skólakerfisins. Um leið og við aukum fjármuni til skólakerfisins verða líka að fylgja alþjóðlegar kröfur um gæði, hvort sem það er á háskólastigi eða öðrum skólastigum í landinu. Þess vegna tel ég mikilvægt að við höldum áfram með samræmd könnunarpróf en með öðrum hætti en við gerðum og höfum gert á undanförnum árum. Við erum að færa þau fram, við erum að færa þau fram í október eða nóvember, þau verða því tekin á þeim tíma, fækka þeim en um leið koma upp ákveðinni viðmiðun fyrir nemendurna, foreldrana og skólana til þess að eflast og styrkjast á lífsins leið.

Ég held því að það hafi verið rétt skref fyrir okkur öll sem við tókum sameiginlega fyrir rúmu ári þegar við samþykktum ný lög um allt skólakerfið í rauninni. Við samþykktum ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Við samþykktum líka lög um lengingu á kennaramenntun, sem ég tel tvímælalaust hafa verið rétt skref, hiklaust rétt skref til að efla kennaramenntunina því allt hangir þetta saman við að halda áfram að útskrifa öfluga og duglega kennara sem geta mætt þeim auknu kröfum sem hafa verið gerðar til skólastarfsins og þá um leið kennarastarfsins sem slíks.

Ég held líka og er sannfærð um að sameining Kennaraháskólans og Háskóla Íslands hafi verið rétt skref enda hafa báðir háskólarnir staðið mjög vel að öllum þeim málum er snerta sameininguna. Þá sameiningu hefur verið nálgast af miklum metnaði og áhuga af hálfu starfsfólksins. Bind ég miklar vonir við að hið nýja menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem er í rauninni Kennaraháskólinn, auk uppeldis- og kennslufræðinnar frá Háskóla Íslands, muni leiða til þess að við sjáum áfram fram á öfluga kennaramenntun og fjölda í kennarastétt.

Það er einnig fagnaðarefni að á undanförnum árum höfum við náð að hækka hlutfall fagmenntaðra kennara á öllum skólastigum og er það sérstaklega ánægjulegt þegar litið er til leikskóla og grunnskóla. Þó að það kunni að vera svæðabundið er alveg ljóst að efling kennaramenntunar t.d. á Norðurlandi hefur stuðlað að því að hlutfall leikskólamenntaðra kennara fyrir norðan er með því hæsta sem gerist. Allt er þetta gott og allt er þetta í þágu barnanna.

Við ræddum aðeins í andsvari áðan að vissulega hefði þessi tillaga í för með sér ákveðinn sparnað fyrir menntakerfið, ekki mikinn sparnað en þó ákveðinn sparnað upp á 5–8 milljónir og er það ágætt. Ég held engu að síður að þegar kemur að því að ræða sparnað og hagræðingu í skólakerfinu verði að leita allra leiða til að ná fram slíkri hagræðingu án þess að það bitni á þjónustu við börnin okkar, halda verður uppi kennslu og þjónustu fyrir börn með þroskaraskanir eða börn sem þurfa á ákveðnum stuðningi að halda, sérkennslu o.s.frv. Ég held að við verðum að forgangsraða öllu í skólastarfinu í þágu þessara atriða og það geti gengið snurðulaust fyrir sig. Menn vita þá að það þýðir að taka þarf á málum annars staðar í skólakerfinu og ég trúi ekki öðru en að við getum sammælst um nákvæmlega þessi atriði í forgangi innan skólakerfisins okkar.

Þegar ég fór yfir nefndarálitið, sem allir nefndarmenn menntamálanefndar eru á og er það fagnaðarefni, velti ég því fyrir mér hvort ekki væri ástæða til þess að menntamálanefnd, sem kemur sameiginlega með tillögu sem snertir sparnað í skólakerfinu, — um könnunarprófin og það að fella samræmdu prófin niður næsta vor á meðan skil eru á milli nýja og gamla kerfisins — skoðaði líka þróun skólakerfisins á næstu árum með tilliti til þeirrar hagræðingar sem þarf að vera í fjárlögunum öllum. Það skiptir okkur miklu máli að vita hvar borið verður niður og heyra hug fólks og stjórnmálaflokka varðandi niðurskurð í ríkisfjármálum. Máli skiptir að hnífnum sé beitt á réttum stöðum og forgangsraðað sé í þágu velferðar- og menntamála. Þessum málaflokkum verður ekki hlíft algjörlega og við gerum okkur grein fyrir því að margþættar aðgerðir þarf til að mæta erfiðu gati á fjárlögum. Þá hljótum við að spyrja að því hvernig ríkisstjórnin ætlar að mæta kröfum, m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, varðandi fjárlögin. Við hljótum að spyrja þess og fara fram á, fyrst menntamálanefnd getur komið sameiginlega fram með tillögu, að nefndin fari líka yfir þær aðgerðir og tillögur sem hæstv. menntamálaráðherra mun leggja fram um skólakerfið.

Á að sameina skólastofnanir? Til dæmis Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Háskóla Íslands? Ég held að þann kost væri fýsilegt að skoða og fara gaumgæfilega yfir því að ég er sannfærð um að þar verði enn frekar hægt að styrkja rannsóknir og skólakerfið með alls kyns aukinni samvinnu á milli stofnana og hugsanlega í framtíðinni að koma alla vega upp fyrrihlutanámi í dýralækningum. Til þess höfum við alla burði ef Háskóli Íslands, Hvanneyri og Keldur leggja saman í púkk.

Líka er hægt að spyrja frekari spurninga: Hvað með Háskólann á Hólum og þá nemendur sem þar eru? Er æskilegt að auka samvinnu Hólaskóla við, til að mynda, Háskólann á Akureyri, fyrst hæstv. menntamálaráðherra hefur slegið út af borðinu tillögur þess efnis að Háskólinn á Hólum verði sjálfseignarstofnun í eigu hagsmunaaðila, Bændasamtakanna, Landssambands hestamanna, heimamanna á Sauðárkróki og því svæði?

Þetta eru allt spurningar sem hv. menntamálanefnd hlýtur að spyrja þegar kemur að fjárlögum og fjárlagagerð. Þetta eru stórar spurningar er snerta öll kjördæmin og þýðingarmikið er að fá svör við. Hvað með framhaldsskólana? Ég lagði ríka áherslu á það í menntamálaráðherratíð minni að auka þjónustuna og koma henni sem næst heimamönnum. Til þess þurfti ákveðnar forsendur, bæði rekstrarlegar og raunverulega aðsókn heimamanna, þ.e. barnanna sem eru að koma upp úr grunnskólum, í viðkomandi skóla. Ég tel mikilvægt að við sjáum fram á ákveðna samvinnu og hugsanlega sameiningu líka á framhaldsskólastigi. Við þurfum að fá þessi svör, m.a. frá hæstv. menntamálaráðherra, og ég mæli eindregið með því að menntamálanefnd fari yfir þær tillögur sem nauðsynlegar eru til að hægt verði að brúa bilið er snertir fjárlög ríkisins, því að sjálfsögðu er langtímahagsmunamál fyrir okkur öll og stóra markmiðið að ríkissjóði verði skilað með afgangi.

Helstu styrkleikar okkar sem þjóðar í þessu hörmulega hruni eru m.a. gott menntakerfi og hinn norski bankastjóri Seðlabanka Íslands hefur dregið fram að það er hluti þess hversu góð viðspyrna okkar er. Það er algjörlega hárrétt, það er gott menntakerfi en ekki síður hitt að ríkissjóði var skilað með afgangi. Ef ríkissjóði hefði ekki verið skilað með afgangi væri staða okkar miklu verri. Hún væri miklu verri ef ríkissjóður hefði ekki verið þokkalega rekinn og þó að eflaust hefði verið hægt að gera betur greiddum við engu að síður niður skuldir, við greiddum niður erlend lán og skiluðum ríkissjóði með afgangi sem þýðir að staða okkar er sterkari í þeim efnahagslegu erfiðleikum sem við stöndum í en annarra þjóða sem glíma nú við nákvæmlega sömu hluti og við.

Við höfum komið okkur upp góðu menntakerfi, herra forseti. Við komum ríkissjóði í þokkalega stöðu og erum með duglegt fólk sem hefur og vill hafa öll tækifæri til vinnu og þess að sækja sér nám og þá verðum við einfaldlega að búa þannig um hnútana að við stjórnmálamennirnir þvælumst ekki fyrir því að hér verði áfram fullur kraftur í atvinnulífinu og fleiri störf sköpuð.

Þess vegna tel ég líka, svo ég fari aðeins inn í umræðuna um fundarstjórn forseta, að við þurfum að koma hér á dagskrá þingsályktunartillögu er snertir hvalveiðar og ýmsar tillögur sem snerta sköpun starfa, til að fólk geti gengið að störfum. En við þurfum líka að setja á dagskrá, alla vega í menntamálanefndinni, hvernig við ætlum að verja það að hafa skólana opna og stuðla að því að námstækifæri verði jafnfjölbreytt og þau eru í dag og hvernig við ætlum að taka á því fjárlagagati sem fram undan er. Þess vegna tel ég mikilvægt að draga það fram, annaðhvort hér í þingsalnum eða í menntamálanefndinni, hvernig við ætlum að stuðla að því að þetta samfélag verði jafnkröftugt og það hefur verið þegar kemur að menntamálum og rannsóknum.

Af því að við tölum um störf og eflingu menntakerfis og rannsókna til að við komumst fyrr út úr kreppunni, tel ég skipta miklu að við hefjum umræður um tillögur er snerta skattkerfið, undanþágur og afslætti þegar kemur að rannsóknum og þróunum, til að mynda innan atvinnugreina og fyrirtækja, sem hafa lagt mikla fjármuni og krafta í það að efla rannsóknir og þróunarstörf. Þar eru dýru störfin, þar eru verðmætu störfin fyrir fólkið okkar, sem nú er í skólum að mennta sig og vill ganga að störfunum gefnum. Þetta er eitthvað sem ég held að brýnt sé að ræða hér í þingsal og snertir okkur öll.

Ég vek aftur athygli á því að menntamálanefnd gat komið sér saman um þetta mál líkt og við lukum saman við lög um leikskóla og grunnskóla, rammalöggjöf um háskóla og nýjar löggjafir um kennaramenntun og opinbera háskóla. Við höfum farið yfir allt menntakerfið. En hvað kemur svo á daginn? Ég frétti í dag að ekki væri möguleiki á að klára frumvarp til laga um framhaldsfræðslu, sem ég mælti fyrir nú á haustdögum og almennt var gerður góður rómur að og allir er tóku til máls vildu sammælast um að koma því máli út úr nefnd, og það mundi daga uppi. Þetta er akkúrat mál sem sem við eigum að klára áður en við förum heim af þingi og að við skulum ekki geta klárað það er frekar dapurlegt því það getur stuðlað að opnara skólakerfi og komið verði til móts við þá sem hafa litla menntun með því að meta færni fólks á vinnumarkaði, sem hefur unnið ýmis störf og aflað sér víðtækrar reynslu og þekkingar, inn í skólakerfið. Mér er mikil spurn af hverju við klárum ekki það mál á þessu þingi. Ég held að það sé grafalvarlegt að fólkið sem þarf á því að halda að komast inn í skólakerfið fær ekki metna reynslu sína og þekkingu. Af hverju getum við ekki klárað málið á þessu þingi? Er þetta framgangur ríkisstjórnarinnar að klára erfiðu málin og góðu málin sem stuðla að því að fólk fái að njóta hæfileika sinna og segja síðan stopp varðandi framhaldsfræðsluna? Að þegar við höfum náð að endurskoða allt skólakerfið sé framhaldsfræðslan eftir? Það lá ljóst fyrir að semja þurfti um ákveðin atriði.

Ég spyr: Af hverju er það ekki búið? Það lá ljóst fyrir við framsögu og meðferð málsins að klára þurfti ákveðin atriði er snerta vinnumarkaðinn, ASÍ og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Af hverju er ekki búið að því? Af hverju hefur hæstv. menntamálaráðherra eða fjármálaráðherra ekki klárað þau atriði? Þetta frumvarp mun stuðla að því að fólk með litla menntun, minni menntun en aðrir í samfélaginu, geti notið færni sinnar og þekkingar inni í skólakerfinu. Af hverju klárum við ekki heildarendurskoðun á skólalöggjöfinni? Af hverju er hún allt í einu stopp þegar ný ríkisstjórn er komin? Við erum á fleygiferð að endurskoða alla skólalöggjöfina og svo kemur ný ríkisstjórn og þá stoppa svona mál, sem snerta drjúgan hluta þjóðarinnar. Ég tel mjög mikilvægt og brýnt að þetta mál verði klárað til að fólk geti notið sín í skólakerfinu þegar atvinnuleysið blasir við. Þegar við göngum til kosninga á kjördag verða hugsanlega 18.000–20.000 atvinnulausir. Stór hluti þeirra er fólk með litla sem enga menntun.

Við eigum að stuðla að því að í skólakerfinu verði leiðir í boði fyrir það fólk. Það er mikilvægt, hér liggur fyrir frumvarp sem getur stuðlað að því að hjálpa þeim hópi og við eigum að klára það.