Málefni aldraðra

Mánudaginn 23. mars 2009, kl. 18:13:16 (5696)


136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[18:13]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega eru mörg dæmi þess að fólk hefur þurft að fara á milli sveitarfélaga til að komast í hjúkrunarrými. Ég tel það reyndar vera á undanhaldi og þau dæmi sem hafa komið upp hafa yfirleitt vakið athygli.

Það sem ég var að tala um áðan, um Framkvæmdasjóð aldraðra og nýtingu á því fjármagni, og þar sem við þekkjum það að víða eru aðstæður ekki nægilega góðar, þá er spurning einmitt núna hvort það fjármagn sem er í framkvæmdasjóðnum verði nýtt í meira mæli til viðgerða og endurbóta en til uppbyggingar hjúkrunarrýma. Þetta þarf Framkvæmdasjóður aldraðra að skoða núna og komast að niðurstöðu um, m.a. með hliðsjón af þeim umsóknum sem liggja fyrir.

Ég talaði um það áðan að við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga verður oft ákveðinn þrýstingur á aukið fjármagn. Við sáum m.a. að við flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna jókst kostnaðurinn verulega. Og rökin fyrir því að færa þessa þjónustu yfir til sveitarfélaga eru náttúrlega þau að þetta er nærþjónusta og þá er nábýlið milli þess sem veitir fjármagnið og þeirra sem fá þjónustuna minna. Það leiddi alla vega til þess varðandi grunnskólana að kostnaður jókst mjög mikið, m.a. vegna þess að starfsmannafjöldi jókst verulega. Við þurfum að hafa í huga að kostnaður getur aukist og fólk þarf að gera sér grein fyrir að það þarf að sníða sér stakk eftir vexti í þeim efnum.