Gengi krónunnar og efnahagsaðgerðir

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:07:59 (6050)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gengi krónunnar og efnahagsaðgerðir.

[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta voru fimm örlitlar spurningar sem ég á að svara á tveimur mínútum og miðað við þann tíma og þau mál sem hv. þingmaður hefur áhuga á að hér verði afgreidd þarf þingið að starfa í nokkrar vikur í viðbót. Af hverju gefur gengi krónunnar eftir? Aðalskýringin er væntanlega sú að undanfarnar vikur hafa verið stórir gjalddagar og miklar vaxtagreiðslur hafa farið út úr landinu. Nú er þeim að mestu leyti lokið og ekki von á sambærilegum tíma fyrr en þá í júní eða júlí í sumar þannig að vonir standa til að gengi krónunnar styrkist á nýjan leik en einnig verður að viðurkennast að sennilega leka gjaldeyrisskilareglur eitthvað þannig að það fyrirkomulag sem var sett upp í haust heldur ekki að fullu.

Í öðru lagi um skatta. Aldrei hefur staðið til að þessi ríkisstjórn, á þessum stutta tíma, breytti sköttum og engin áform eru um slíkt né hafa ákvarðanir verið teknar um slíkt í framhaldinu. Sjálfstæðisflokkurinn hafði forustu um að hækka skatta fyrir áramót, tekjuskatt og útsvar samanlagt um 1,6%, eða um það bil 11,5 milljarða kr. ef sveitarfélögin hefðu nýtt sér það að fullu, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn brást þegar þannig við í kjölfar bankahrunsins að hækka skatta, væntanlega vegna þess að ella hefði halli á ríkissjóði orðið enn meiri en hann þó er og stefnir í að verða 150–170 milljarðar kr. á þessu ári. Það er arfleifð Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum. Þannig skilur hann við ríkissjóð eftir tæplega 18 ára ráðsmennsku.

Ég lýsi eftir uppbyggilegum hugmyndum um hvernig við ætlum að ná þessum halla niður úr 150–170 milljörðum kr. á þessu ári í 10% samdrætti þjóðartekna og áætluðum núll hagvexti á næsta ári öðruvísi en fara þar einhverjar blandaðar leiðir sem fela bæði í sér sparnað og ráðdeild í rekstri hins opinbera — og svara ég þar með þeirri spurningu — en um leið eftir atvikum einhverri sanngjarnri tekjuöflun. Ég hef ekki heyrt slíkar tillögur frá Sjálfstæðisflokknum og ef hann ætlar að ná niður 170 milljarða ríkissjóðshalla með niðurskurði einum saman þætti mér fróðlegt að sjá tillögur um hvar og hvernig á að skera.

Svarið við síðustu spurningunni er já. Ég tel að íslensk stjórnvöld hafi skilað öllu og séu að skila öllu því sem þarf til þess að áætlunin (Forseti hringir.) í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gangi eftir.