Gengi krónunnar og efnahagsaðgerðir

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:10:22 (6051)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gengi krónunnar og efnahagsaðgerðir.

[15:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni með það að samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn virðist ganga vel og ekki séu neinir hnökrar á því samstarfi vegna þess að við eigum mikið undir því að hvorki hiksti né hik komi í stuðninginn sem við treystum þar á.

Varðandi skattahækkanir Sjálfstæðisflokksins er það í sjálfu sér rétt að gerðar voru breytingar þær sem hæstv. fjármálaráðherra rakti en fyrir alla þá sem eru með 400 þús. kr. eða minna í laun er skatturinn óbreyttur vegna þess að frítekjumarkið hækkaði um áramótin og engin aukin skattbyrði var lögð á alla þá sem eru á þessu tekjubili þannig að rangt er að koma hér upp og halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aukið skattbyrði á þennan tekjuhóp. Þvert á móti telur Sjálfstæðisflokkurinn að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið sé nóg að gert og við eigum ekki að auka byrðar atvinnustarfsemi og heimila í landinu á þessum viðkvæmu tímum. (Forseti hringir.) Við eigum þvert á móti að að styðja við atvinnustarfsemina. Með því að styðja við atvinnustarfsemi í landinu (Forseti hringir.) tryggjum við að ríkissjóður eigi von á einhverjum tekjum (Forseti hringir.) með tekjuskatti en ekki með því að taka vandamálin yfir eða ríkisvæða þau.