Gengi krónunnar og efnahagsaðgerðir

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:11:43 (6052)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gengi krónunnar og efnahagsaðgerðir.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og tímann, þótt naumur sé, þar sem ég hafði ekki tíma til þess í fyrri ræðu minni að óska nýkjörnum formanni Sjálfstæðisflokksins hjartanlega til hamingju og bjóða hann velkominn til starfa sem forustumann síns flokks. Við væntum að sjálfsögðu góðs af samstarfi við hann.

Ánægjulegt er að Sjálfstæðisflokkurinn viðurkennir að hann hækkaði skatta fyrir áramótin. Hann hækkaði skatta fyrir áramótin, samanlagða álagningarprósentu tekjuskatts og útsvars um 1,6% sem hefði gefið að fullu nýtt 11,5 milljarða kr. Það er staðreynd. Það var löngu áður í tengslum við kjarasamninga búið að ákveða skattleysismörk eins og þau mundu verða á gildistíma kjarasamningsins þannig að það er eftiráskýring hjá Sjálfstæðisflokknum að með því hafi hann ekki hækkað skatta.

Ég lýsi þá eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn útlisti fyrir kosningar hvernig hann ætlar að ná 170 milljarða kr. sparnaði í rekstri ríkissjóðs með niðurskurði einum saman. (Gripið fram í.) Hvað verður eftir af velferðarkerfinu ef Sjálfstæðisflokkurinn fær að fara um það með niðurskurðarsveðjuna, (Gripið fram í.) ef hann hafnar því [Frammíköll í þingsal.] algerlega (Forseti hringir.) að afla einhverra tekna upp í þetta gat. (Gripið fram í: Eigum við að vinna vinnuna fyrir þig?)