Gjaldeyrishöft og jöklabréf

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:20:25 (6057)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gjaldeyrishöft og jöklabréf.

[15:20]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Til að koma okkur út úr því kreppuástandi sem nú ríkir þarf að leysa nokkur brýn verkefni. Eitt þeirra tengist gjaldeyrishöftum og svokölluðum jöklabréfum.

Sem kunnugt er voru samþykktar á Alþingi undir lok síðasta árs breytingar á lögum um gjaldeyrismál. Í kjölfarið voru sett á gjaldeyrishöft til að koma í veg fyrir víðtækan fjármagnsflótta. Gjaldeyrishöftin eru bölvun í íslensku atvinnulífi, þau skerða athafnafrelsi og rýra samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Einnig eru í gildi umtalsverðar takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila hérlendis.

Virðulegi forseti. Frjálsir fjármagnsflutningar eru forsenda þess að íslensk fyrirtæki geti tekið þátt í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Gjaldeyrishömlur virka afar neikvætt á samkeppnishæfni fyrirtækja. Þannig aukast líkur á enn fleiri gjaldþrotum fyrirtækja hér á landi með geigvænlegum áhrifum á atvinnustig og afkomu heimilanna í landinu. Baráttan við atvinnuleysi er eitt mesta forgangsverkefnið, ég tek undir það með hæstv. fjármálaráðherra.

Til að losa um gjaldeyrishöftin þarf að leysa vandann sem tengist jöklabréfunum, því ein helsta réttlætingin fyrir gjaldeyrishaftastefnu felst í því að háar fjárhæðir eru útistandandi í jöklabréfum. En sem kunnugt er eru jöklabréf skuldabréf sem erlendir aðilar hafa gefið út í íslenskum krónum. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra þriggja spurninga: Hver er upphæð jöklabréfanna? Það er svolítið á reiki. Í öðru lagi: Eru lausnir í augsýn og ef svo er hverjar eru þær? Í þriðja lagi: Hvernig hyggst viðskiptaráðherra beita sér fyrir því að leysa málefni tengd jöklabréfunum og losa þannig um gjaldeyrishöftin?