136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

frumvarp um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

[15:30]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið en spurning mín var um hvort hægt væri að nefna einhver dæmi um fyrirtæki. Hæstv. ráðherra gerði það ekki heldur talaði almennt um málið eins og það kemur fyrir í frumvarpinu. Mér leikur hugur á að vita, ef þingið á að fara að samþykkja þetta, ætli menn teldu þá nauðsynlegt að ríkið ræki útgerðina í landinu að einhverju leyti eða verslunina? Segjum bara að Bónus fari á hausinn og Krónan líka, hvernig mundum við bregðast við því? Ég vona að verslunin standi vel undir sér og allt það en spurningin er um þetta: Um hvers konar rekstur er að ræða? Er þetta einhver almennur rekstur eða hvað? Getur þetta verið útgerð, geta þetta verið flugfélög, skipafélög, eða hvað er um að ræða, svo að talað sé beint út?