Umræða um utanríkismál

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:39:28 (6069)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess að í dag eru liðin 60 ár frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það var mikið gæfuspor fyrir íslenska þjóð og um leið eru 60 ár frá því að gerð var árás á Alþingishúsið. En meiri hluti þingsins stóð fast í lappirnar og tók þá mikilvægu ákvörðun að stilla Íslandi í hóp lýðræðisþjóða og segja já við frelsinu en nei við helsinu, nei við okinu og áformum sem m.a. fylgdu kommúnismanum. NATO hefur síðan verið hornsteinn utanríkisstefnu okkar farsællega í 60 ár og menn geta ímyndað sér hvað hefði gerst ef við hefðum ekki tekið þá ákvörðun að vera með í þessu friðarbandalagi. Það var mikilvægt skref hjá framsýnum og kjarkmiklum forustumönnum að taka þessa ákvörðun þegar þeir stóðu gegn öllu þessu ati á Alþingishúsið. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Af hverjum ræðum við ekki skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál sem er lögbundin? (Forseti hringir.) Það hefði verið vel við hæfi ef hæstv. forseti hefði beitt sér fyrir því að ræða skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál einmitt á þessum degi. Þá hefðum við sýnt þeim sómamönnum og -konum sem tóku þetta farsæla spor fyrir 60 árum og sagt: Takk fyrir að vera í hópi vestrænna lýðræðisþjóða.