Umræða um utanríkismál

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:45:42 (6075)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:45]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég lít ekki á það sem eitthvert samkomulagsatriði hvort hér verði tekin til umræðu skýrsla Ríkisendurskoðunar eða ekki. Það eru lög í gildi í landinu, þau gilda fyrir forsætisnefnd þingsins, fyrir hæstv. forseta Alþingis og eftir þeim verður að fara. Það þarf því að ræða hér um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Á þessum tímum í samfélaginu, þegar fjármálakerfið er hrunið og stórar spurningar hafa vaknað um ýmis mikilvæg mál, að hæstv. forseti þingsins dragi lappirnar um það að hér sé rædd skýrsla Ríkisendurskoðunar á Alþingi Íslendinga finnst mér fyrir neðan allar hellur, ég verð að segja það.

Þetta eru mál sem þarf að taka til umfjöllunar og umræðu og ég krefst þess af hæstv. forseta að hann hlutist til um það að skýrsla Ríkisendurskoðunar verði rædd hér. (Gripið fram í.)