Umræða um utanríkismál

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:46:55 (6076)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:46]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð þeirra hv. þingmanna sem hafa óskað eftir því að skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál verði rædd hér og sérstaklega á þessum degi þegar enn ríkir svo djúpstæður ágreiningur á milli okkar þingmannanna, eftir 60 ár í NATO, um skilgreininguna á því hvers konar fyrirbæri NATO er, hvort það er friðarbandalag, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi, eða hernaðarbandalag eins og ég skilgreini NATO. Ég held að það sé því rétt, hæstv. forseti, að við gefum okkur góðan tíma til að ræða um skýrslu utanríkisráðherra og sjáum í hvers konar félagsskap við höfum verið.