Umræða um utanríkismál

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:47:56 (6077)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:47]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vék hér að skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun gefur árlega út ársskýrslu sína en ég kannast ekki við, virðulegur forseti, að sú skýrsla sé komin út. En ef hún er komin út ber hins vegar að senda hana strax til umsagnar hjá fjárlaganefnd. Eftir að fjárlaganefnd hefur fjallað um skýrsluna skilar fjárlaganefnd frá sér áliti og hún er þá tekin hér yfirleitt strax á dagskrá. Ef skýrslan er nýlega komin út óska ég eftir því, virðulegur forseti, að hún sé send fjárlaganefnd til umsagnar þannig að við getum rætt hana. Það er vaninn að ræða hana á vorþingi og ég held að fjárlaganefnd geti öll staðið á bak við það að ræða ársskýrslu Ríkisendurskoðunar sem fjallar um starfsemi Ríkisendurskoðunar, starfsmannahald og ýmislegt sem fer fram (Forseti hringir.) hjá Ríkisendurskoðun á ári hverju.