Umræða um utanríkismál

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 15:52:06 (6080)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:52]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Á þessum merkisdegi vil ég náttúrlega að það komi fram að Framsóknarflokkurinn er hlynntur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og hefur verið það alla tíð og er einn af hinum svokölluðu lýðræðisflokkum á Íslandi og ekki fleiri orð um það.

Ég segi eins og aðrir hér að ég hlakka mjög mikið til að fá að ræða skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál, m.a. vegna þess að þar gefst möguleiki til að ræða Evrópumálin og þau eru náttúrlega í brennidepli í dag eins og reyndar hefur verið lengi. Flokkarnir eru smátt og smátt að móta stefnu í þeim málaflokki nema stefna Sjálfstæðisflokksins virðist vera mjög óljós. Og af því að það var varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem hóf þessa umræðu og óskar eftir að fá að ræða skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál held ég að það geti verið mjög áhugavert að hlusta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins fjalla um Evrópumál á hv. Alþingi, svona áður en við förum heim.