Umræða um utanríkismál

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 16:09:45 (6094)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[16:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegur orðaleikur að kalla það allt í einu málþóf þó að hv. þingmenn tali hér í innan við hálftíma um og knýi á um það að hér séu rædd mál sem ber að ræða á Alþingi. Það er einfaldlega þannig að hvernig sem menn líta á málin hljóta þeir að telja að skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál sé eitt af burðarmestu málum sem hægt sé að ræða. Þetta er ósköp einfalt, við erum að reyna að fara fram á það að fá svar frá hæstv. forseta um hvenær þessi skýrsla og aðrar þær skýrslur sem hér hafa verið nefndar komast á dagskrá.

Ég vil hvetja hæstv. forseta til að reyna að stuðla hér að góðri samvinnu í þinginu og að hann setjist niður með forsætisnefnd og formönnum þingflokka til að komast að niðurstöðu um hvenær þessi mál verða tekin á dagskrá.

Þetta er enginn leikur. Þetta er ekki málþóf eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem hafa allt á hornum sér í þessari umræðu, hafa talað um. Þetta er einfaldlega þannig að Alþingi ber að ræða þessi mál og eðlilegur framgangsmáti er að það sé gert í góðri sátt og reynt verði að komast að samkomulagi um það að gefa þessu eðlilegt rými hér í þinginu. Ég kann illa við þær hótanir hæstv. forseta að þetta geti verið einhvers konar afgangsstærð sem eigi þá bara að ræða einhvern tíma þegar honum hentar. (Gripið fram í: Málþóf.)