Lyfjalög

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 16:42:41 (6113)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[16:42]
Horfa

Ásta Möller (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er komin til 2. umr. breyting á lyfjalögum en með frumvarpinu er lagt til að frestað verði á ný hluta af gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Fresturinn varðar eingöngu smásölu lyfja og er til næstu áramóta. Það er hv. heilbrigðisnefnd sem flytur tillöguna og er samstaða um málið.

Frestur nú er vegna þess að nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja sem fyrirhugað var að tæki gildi 1. apríl nk., eða eftir tvo daga, hefur verið frestað. Hlutur heimilanna í heildarlyfjakostnaði hefur aukist á undanförnum árum og er full ástæða til að taka þessi mál til endurskoðunar. Jafnframt hefur verið sýnt fram á ákveðið ójafnræði milli sjúklingahópa varðandi lyfjakostnað. Þingflokkur sjálfstæðismanna leggur ríka áherslu á að vinnu við nýtt greiðsluþátttökukerfi verði hraðað, það er mikið hagsmunamál fyrir fólkið í landinu.