Ábyrgðarmenn

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 16:55:33 (6120)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[16:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að gera grein fyrir atkvæði mínu. Ég greiði atkvæði með þessu. Þetta frumvarp kemur í veg fyrir ósið sem hefur verið við lýði á Íslandi, ósið sem hefur rústað fjölskyldubönd, rústað vinabönd og gert það að verkum að lántakandi og lánveitandi eru ábyrgðarlausir en ábyrgðarmennirnir sem eiga fasteignir eru dregnir til ábyrgðar, oft án þess að þeim sé gerð nægilega mikil grein fyrir því.

Málið var mikið rætt og var lengi í vinnslu. Ég hef verið meðflutningsmaður þess og barist fyrir því að það næði fram að ganga. Ég gleðst yfir árangrinum og tel að þetta muni strax hafa verulega mikil áhrif til bóta á fjármálamarkaðinn og koma í veg fyrir þessa miklu harmleiki, virkilegu harmleiki sem hafa átt sér stað á þessum markaði. Ég segi já.