Aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 17:08:41 (6123)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg í umræðu um þetta þjóðþrifamál og mikilvægi þess að fjölga konum í stjórnmálum og annars staðar í samfélaginu þar sem ráðum er ráðið og teknar eru mikilvægar ákvarðanir um hagsmuni samfélagsins, hvort sem er í sveitarstjórnum, á Alþingi, í opinberum stofnunum eða stjórnsýslunni.

Það hefur lengi verið talað um viðhorfsbreytingu í þessum málaflokki. Reynslan sýnir okkur eftir 5.000 ára karlaveldi og tæplega 100 ára baráttu fyrir réttindum kvenna, sem enn er ekki lokið víðast um heim, að það verður að taka um það pólitískar ákvarðanir að jafna rétt kynjanna í samfélaginu. Þess vegna hafa gildandi jafnréttislög það að markmiði að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi og þess vegna vinna stjórnvöld í þeim anda að beita áhrifum sínum og valdi til að fjölga konum, hvort heldur er í sveitarstjórnum eða á Alþingi.

Það breytir auðvitað ekki því að þegar tekið er sérstaklega til stjórnmálaþátttöku kvenna er ábyrgð stjórnmálaflokkanna mest í því að stilla þannig upp á framboðslista sína að þar sé hlutur kvenna tryggður. Reynslan sýnir okkur einfaldlega að það gengur mjög hægt og hefur í raun staðið í stað á Íslandi í u.þ.b. 10 ár. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því núna að hlutur kvenna í sveitarstjórnum er aðeins tæplega 36% og hlutur kvenna á Alþingi tæplega 32% og það hefur ekki hreyfst mikið í 10 ár.