Aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 18:21:15 (6133)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að auðvitað skiptir kostnaðurinn máli í þessu. Með afgreiðslu tillögunnar liggur vonandi fyrir skýr vilji alls Alþingis um að fara í slíkt verkefni og við þekkjum það að síðan fer hún til framkvæmdarvaldsins. Því verður þá fylgt eftir á Alþingi, hvort heldur það er á sumarþingi eða haustþingi á þessu ári, að fá til þess fjármagn.

Ég hygg að hér sé ekki um slíkar upphæðir að ræða að þær megi ekki færa af öðrum liðum, hvort heldur það er af liðum félags- og tryggingamálaráðuneytis eða einhverjum öðrum liðum í fjárlagagerðinni. Eins og hv. þingmaður veit vel er mörg matarholan í þeirri fjárlagagerð. Ég hygg að það sem skipti mestu máli sé að fyrir liggi þverpólitískur vilji fyrir slíku átaki til þess að stuðla að viðhorfsbreytingu. Og hvar þarf helst að stuðla að viðhorfsbreytingu? Ætli það sé ekki innan hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka þar sem raðað er á framboðslista hvort heldur er til sveitarstjórna eða Alþingis? Við verðum auðvitað, ekki síst hv. þingkonur, að horfast í augu við að það er oftast við rammastan reip að draga innan stjórnmálaflokkanna þegar kemur að þeirri viðhorfsbreytingu, hvað sem menn segja síðan á hátíðarstundu.

Varðandi hina spurningu hv. þingmanns: Nei, umsagnaraðilar voru ekki kallaðir til fundar við nefndina. Nefndin var sammála um að afgreiða þetta mál, um það voru engar deilur í nefndinni. Við komumst einfaldlega að samkomulagi um að afgreiða þingsályktunartillöguna, enda væru á henni þingmenn allra flokka og ljóst að hún hefði stuðning þingsins.