Aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 18:23:16 (6134)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[18:23]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég dreg ekki úr stuðningi mínum við tillöguna en við skulum jafnframt muna að þessi tillaga var lögð fram hér á Alþingi fyrir 6. október, þannig að það voru allt aðrar efnahagslegar aðstæður á þeim tíma. Þó að ég sé einn af flutningsmönnum tillögunnar hafði ég satt að segja gert ráð fyrir því, jafnvel fyrir 6. október, að kannað yrði með hvaða hætti væri hægt að fjármagna málið. Jafnframt að farið yrði út í einhvers konar útreikninga á því hvað þessar aðgerðir mundu kosta Jafnréttisstofu og hvort til þyrfti að koma aukið fjármagn til þess að standa undir slíku átaki. Það held ég að séu bara eðlileg vinnubrögð hjá okkur þingmönnum, hvort sem er á góðæristímum eða krepputímum. Við eigum alltaf að sýna ábyrgð í því hvernig farið er með skattfé. Við verðum alla vega mjög vel meðvituð um það á hverjum tíma hver kostnaðurinn er í þeim tillögum sem við leggjum til á Alþingi að verði samþykktar og tillögur sem við ætlumst til að sé ráðist í. Við verðum að vita hvað þær kosta.